10. nóvember 2007

Af aðalfundum og ókláruðum verkum

Ég fór á aðalfund í gær, var reynar á námskeiði fyrir fundinn og á því varð mér ljóst að ef ég ætti að taka próf í faginu í dag félli ég með glans.
Ég reyndi af veikum mætti að láta leiðrétta það sem mér fannst vera óbermileg íslenska í lögum félagsins sem voru borin upp til samþykktar eftir breytingar, en því miður voru ekki nógu margir sammála mér í því að orðinu ,,um" þurfi að fylgja annað orð sem tjáir oss hvað eigi að birta á vefsíðu félagsins.
Til að jafna mig á þessum vonbrigðum með íslenskutilfinningu félagsmanna sturtaði ég í mig nokkrum hvítvínsglösum, rauðvínssopum og rósavíni í lokin og furðaði mig á hvað léttvín getur ruglað mann í kollinum, yfirgaf samkvæmið fyrir miðnætti eins og öskubuska enda búin að styrkja tengslanetið töluvert og fór að sofa.
Í dag er veður til að ganga en ég ákvað að vinna og taka til og fara svo og kaupa kattamat þegar sjúkraliðinn er búinn í sínum kynningarstörfum. Ég er auðvitað ekkert byrjuð á vinnunni svo ég fæ sennilega ekki nema eitt dekk undir bilinn á morgun en ég var að ákveða að vinna aðeins meira heima fyrr Píparann og láta hann bara borga mér í dekkjum.
Heimlistölvan hrundi í vikunni þegar ég sló rafmagninu út í rafmagnstöflunni sem var byrjuð að bráðna og það er ekki komið í ljós hvort harði diskurinn er ónýtur eða ei. Ég nenni ekki að hafa áhyggjur af því í dag. Hann verður hvorki svo sem hvorki né, meira eða minna ónýtur við það að velta vöngum. Þetta er kallað æðruleysi ef þið hafið ekki vitað það en það væru nú svo sem eftir öllu að myndirnar mínar væru horfnar að eilífu.
Kettirnir mala, sólin skín og ég er að hugsa um að kaupa vélarlausan jeppa af móðir minni af því mig langar í bíl á 35".

Engin ummæli: