Ég treysti mér ekki í Þórsmerkurferð, ætla bara að sitja heima og vorkenna mér. Er búin að hamast við það í allan dag og það var ekki fyrr en ég neyddist til að fara í blómabúð til að kaupa blóm á pakkann handa Flubbanum að ég tók eftir því að það er til fullt af skemmtilegum hlutum í tilverunni. Ég var farin að kenna krökkunum sem voru að afgreiða hvernig þau ættu að velja saman liti í blómvendi áður en þau losnuðu við mig út og ef eigandinn hefði verið á staðnum hefði ég örugglega sótt um vinnu.
Svo fór ég með teikniblokkina mína og litina til Sjúkraliðans til að teikna afmæliskortið.
Ég er búin að uppgötva hvers vegna ég fékk hópstjórahlutverkið á vinnustaðnum, mér ferst mjög vel úr hendi að sitja og segja öðrum hvernig ég vilji að þeir vinni og Sjúkraliðinn lét vel að stjórn og teiknaði allt það sem ég sagði henni eins auðveldlega og að drekka vatn.
Hún er alltaf svolítið sein í gang en þegar hún er komin á stað er hún óstöðvandi.
Þetta var örugglega flottasta kort sem Flubbinn hefur fengið hingað til.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli