23. október 2007

Ljóðagreining

Sjúkraliðinn kallar á ljóðagreiningu. Ég er löngu búin að gleyma öllu um ljóðagreiningu en get samt ekki still mig um að hafa skoðun á málinu og af því ég þarf ekki að tjá hana upphátt, bara með fingrunum tek ég þátt.
Og þegar hugurinn er kominn af stað í ljóðalestri vill hann halda áfram og ég fletti og fletti.

Ég keypti einhverntíma ,,Andvökur nýtt úrval" valið af Finnboga Guðmundssyni, þá var ég búin að lesa, skrifa upp og hengja upp á vegg hjá mér:

Er sólskins hlíðar sveipast aftanskugga
um sumarkvöld
og máninn hengir hátt í greinar trjánna
sinn hálfa skjöld,
er kveldkul andsvalt aftur kæla tekur
mitt enni sveitt
og eftir dagsverk friðnum nætur fagnar
hvert fjörmagn þreytt -

Er úti á grundum hringja bjöllur hjarða,
nú hljótt, svo glöggt,
og kveldljóð fugls í skógnum einstakt ómar
og angurklökkt,
og golan virðist tæpa á hálfri hending
er hæst hún hvín,
og hlátur barna, er leika sér við lækinn,
berst ljúft til mín -

Eins og tunglskins blettir akrar blika
við blárri grund
og ljósgrá móða leitin bakkafyllir
og lægð og sund,
og neðst í austri gylltar stjörnur glitra
í gegnum skóg:
Þá sit ég undir húsgafli í aftanró.

Því hjarta mitt er fullt af hvíld og fögnuð,
af frið mín sál.
Þá finnst mér aðeins yndi, blíða, fegurð
sé alheims mál-
að allir hlutir biðji bænum mínum
og blessi mig-
við nætur gæzku-hjartað jörð og himinn
að hvíla sig.

En þegar hinzt er allur dagur úti
og upp gerð skil,
og hvað sem kaupið veröld kann að virða,
sem vann ég til:
Í slíkri ró ég kysi mér að kveða
eins klökkan brag,
og rétt heimi að síðsu sáttarhendi um
sólarlag.
(Við verklok; Stephan G. Stephansen)

Eins og myndmálið í þessu ljóði höfðaði sterkt til mín varð ég fyrir vonbrigðum með þetta ,,nýja" úrval úr Andvökum. Málið fornt, stirt og stirfið og það var sama hvar ég greip niður, ég náði ekki nokkuri tengingu, stakk bókinni upp í hillu og hef ekki litið í hana fyrr en núna.
Núna þegar Sjúkraliðinn fór að kvabba um ljóðarabb og henti inn á bloggið sitt erindi eftir Stephen G. fór ég að skoða betur og reyna að endurmeta bókina og ég held að þetta úrval sé ekki úrval enda er það tekið fram í formála að þetta sé úrval úr því sem skilið var eftir í fyrra úrvali. Sem sagt úrval úr því sem ekki komst í úrval og nú væri gaman að athuga hversu oft ég kem þessu eina orði í málsgrein en læt það eiga sig í bili.

Skáldið sem orti um Jón hrak:

Kirkjubækur þar um þegja -
þó er fyrst af Jóni að segja,
hann kom inn í ættir landsins
utanveltu hjónabandsins.
--------------------------
Íslenskt ljóðasafn útgefið af Almenna bókafélaginu, þriðja útgáfa 1980. Þegar ég keypti þessar bækur á sínum tíma rann það upp fyrir sambýlismanninum að ég væri sennilega ennþá einkennilegri en hann hafði áttað sig á í okkar stuttu sambúð og hann átti erfitt með að skilja hvað ég var að eyða peningum í þetta safn sem hann sá mig sjaldan líta í, hann þekkti ábyggilega ekki nokkurn annan sem las ljóð ótilneyddur. En núna þegar ég opna þriðja bindið sem er úrval ljóða frá síðarihluta 19. aldar og fyrri hluta þeirra 20. opnast það auðveldlega á síðunni hans Jóns hraks enda var ég búin að læra fyrsta erindið nokkurnveginn.
Svo rakst ég á þetta:

Úr Íslendingadags ræðu

Þó þú langförull legðir
sérhvert land undir fót
bera hugur og hjarta
samt þín heimalands mót,
frænka eldfjalls og íshafs!
sifji árfossog hvers!
dóttir langholts og lyngmós!
sonur landvers og skers!

Þetta ljóð var líka í gömlu bláu skólaljóðunum sem voru skyldulesning í barnaskólum fyrir áratugum, ég las þetta ótilneydd og oftar en einu sinni.

Og nú er Sjúkraliðinn búinn að kalla yfir sig og mig langloku af pælingum um Stephen G. en ég held að ég stilli mig uma ð skrifa þær allar hér.
Ég hef nú samt komist að þeirri niðurstöðu að þó ljóðin hans séu bæði forn og stirð fyrir mig sem er orðin vanari nútíma íslensku sé það vel þess virðið að lesa þau, þó svo ég þurfi að lesa nokkrum sinnum til að ná ,,málinu". Ekki veitir mér af því að auðga orðaforðann og það sem kemur í ljós þegar maður er búinn að ráða ,,rúnirnar" er vel þess virði að leggja svolítið á sig.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þegar lendi á ,,hver" og ,,hvar"
kann ég fátt af ráðum,
fer að lesa ,,Faðir vor"
og fipast svo í báðum.

Drottinn -svo ei þurfa það
þvæla, skilja, muna:
ger mig Rangæingi að
við endurfæðinguna.
S.G.S.

Íslendingadags ræða hans er mögnuð...