Ég hef hitt ýmsa aðila á undanförnum mánuðum sem hafa sagt mér svona hitt og þetta um líkamlegt ástand mitt. ,,Þú hefur lága rist" var minn fyrrverandi heimilislæknir vanur að segja ef ég kvartaði undan verkjum í fótum og baki. Sjúkranuddarinn og höfuðbeina og spjaldhryggjaspekúlandinn talaði um spennu hér og þar og skekkju í mjöðm, taldi sig þó vera búinn að laga það allt saman og sagði mér að rétta mjaðmagrindina fram á við og stíga betur fram í tábergið þegar ég gengi. Bowen konan sagði ekki neitt bara potaði hér og þar. Nuddkonan sagði mér að hætta að læsa hnjánum þegar ég gengi þá stigi ég betur fram í tábergið og færði þungann af hælunum. Hún talaði að vísu lika um að sennilega væri annar fóturinn styttri og sum þeirra töluðu um að ég væri of fött.
Ég er búin að vera að reyna að fara eftir þessum leiðbeiningum öllum auk þess að troða í mig pillum sem eiga að bæta svefn og minnka þar með verki vegna vefjagigtar. Það er eiginlega fljótsagt að ég er jafn ógöngufær eftir allar þessar leiðbeiningar og nýjungar í líkamsbeitingu, ef eitthvað er versna verkirnir í fótum, mjöðmum og baki.
Í lokatilraun (?) til að verða göngufær aftur pantaði ég mér tíma hjá kírópraktor. Ég vissi svo sem ekki mikið um hvað ég var að fara út í en hafði þó einhvern grun um að kíróprektorar hnykktu hér og þar á hryggsúluna í fólki og einhver minntist á myndatökur.
Fyrirsögnin á þessari færslu er villandi en er máltæki frá móður minni sem talar oft um að fólk sé of stutt í annan endann og á þá yfirleitt við að það samsvari sér ekki. Sé stutt til hnésins eða eitthvað álíka.
Ég er aftur á móti of stutt í aðra hliðina samkvæmt röntgenmyndatökunni sem var gerð hjá kírópraktornum. Það munar 10 millimetrum á efstapunkti hægri og vinstri lærleggs. Þessir 10 mm eru langt innan þeirra marka sem Tryggingastofnun setur sem viðmið þess að taka þátt í kostnaði til að rétta fólk af en ég frekar en aðrir veit ekki á hvaða forsendum 20mm talan er sett hjá þeim.
Þessir 10mm mínir duga til að mjaðmagrindin í mér er skökk og neðstu hryggjarliðir ekki nógu framsveigðir en aftur á móti snúnir til hliðanna. Þar til viðbótar eru nokkrir liðir ýmist með of miklu eða of litlu bili og það á að taka hryggsúluna alla í gegn og svo fæ ég hækkun um 8 mm á vinstri hlið. Þar með verður vinstri hallinn tekinn af mér og ég hætti að rífast við sjálfstæðismennina á kaffistofunni.
Allt þetta kemur til með að kosta mig amk hálfan annan helling og engin ábyrgð tekin á verkinu, stráklingurinn lofði nú samt að ég gæti gengið á Esjuna þegar hann væri búinn að hnykkja hrygginn í mér eftir 3-4 vikur. Hann kippti lendarliðnum aðeins til í fyrsta tíma og það fór ekki á milli mála að einhver taug sem liggur niður í hægri fótinn tók viðbragð.
Mér finnst þetta allt saman gífurlega athyglisvert og hef tröllatrú á mönnum sem geta bent mér á beinagrindina í mér og sagt mér hvar hún er í réttri stöðu og hvar ekki.
Trúin flytur fjöll en ég vona að hún flytji mig á fjöll.
2 ummæli:
Vonandi færð bót meina þinn og verði jafn löng í alla enda eftir þessa yfirhalningu á þér.
Og vei... þá kemst hún á Esjuna með mér áður en hún fennur í kaf (Esjan)
Og kona mundu að standa upp frá tölvunni á klukkustunda fresti og hreyfa þig..
Skrifa ummæli