8. ágúst 2007

Ljóðabók og lengingar

Ég eignaðist ljóðabók í gær og las aðeins í henni áður en ég fór í vinnu í morgun. Morgunljóð í stað morgunkaffis er gott veganesti í morgunumferðina.
Ég var stórhrifin og er að hugsa um að lesa eitt fyrir svefninn, svo ekki meir fyrr en ég kem heim úr norðurferðinni. Það gefur svo góða tilfinningu að eiga ólesin gullkorn.
Svo fór ég í göngugreiningu í dag.
Hitti konu sem varð uppnumin og óskaplega glöð yfir fótunum á mér, þeir eru svo sérstakir. Hún kraup á kné fyrir framan mig og starði á stórutá á vinstra fæti og sagði hvað eftir annað að þetta hefði hún ekki nema einu sinni séð áður hjá konu, þetta væri algengar hjá karlmönnum og svo benti hún mér á að stóratáin væri sko allst ekki í réttri stöðu.
Hrifning hennar minnkaði ekki þegar ég var búin að ganga fyrir hana nokkrar ferðir á göngugreiningartæki og hún fræddi mig um ýmsar staðreindir fótataks.
Jarkagangur er þekkt fyrirbrigði hjá þeim sem eru með of háa rist, það heitir auðvitað einhverju fræðiheiti þegar fótarbeinin í ristinni eru sveigð í boga upp á við en ég man það ekki, aftur á móti er hann ekki algengur hjá fólki sem er með plattfót eða mitt fótalag og svo til að kóróna allt enda ég fótatak vinstri fótar með því að spyrna vel í með stórutá.
Til viðbótar fékk ég upplýsingar um hin og þessi bein sem vísa í hina og þessa áttina og heita auðvitað öll eitthvað.
Ekki veit ég hvað mikið af hrifningu þessarar konu byggðist á þeirri staðreynd að hún ætlar að selja mér innlegg í skóna mína og smíða þau sjálf. Ég er eins og kálfur leiddur til slátrunar, dreg bara upp kortin mín til skiptis og borga það sem mér er sagt að borga fyrir herleg heitin í þeirri sælu trú að eftir nokkur tugi þúsunda, lengingu á vinstri hlið og marga hnikki á hrygglengjuna geti ég gengið á fjöll og um gólf verkjalaus. Geti jafnvel gengið upp eða niður Laugaveginn án þess að bryðja verkjatöflur.
Heppin er ég að hafa byrjað að reykja fyrir langa löngu síðan og hætt því aftur, nú get ég nefnilega alltaf sagt ,,Ég nota bara reykingapeningana í þetta!" Þeir sem ekki hafa reykt geta sko ekki notað sparnaðinn af ,,hætt að reykja" í eitt eða neitt.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

humm... þá hef ég ekki efni á nema helming.