9. júní 2007

Að sofa við opinn glugga.

Ég er búin að gera minnst af því sem ég ætlaði að gera í morgun en það gerir ekkert til ég er í sumarfríi og engin aukavinna til að plaga mig núna. Ég hef eftirlátið öðrum hitann og þungann af því fyrirtæki.
Snaraði ryksugunni inn í herbergið mitt áðan og fékk skýringu á martröðinni sem ég fékk í nótt þegar ég fór að ryksuga rimlagluggatjöldin ofan við höfðalagið mitt.
Mig dreymdi að einhver óhugnaleg vera gripi í axlirnar á mér og þrýsti mér niður í rúmið þar sem ég lá á magnaum með andlitið ofan í koddann. Þegar ég svo vissi í svefni að nú væri mig að dreyma og ákvað að vakna hert þessi óhugnaður takið bara enn frekar og þrýsti þungri krumlu á bakið á mér líka. Mér tókst nú samt að vakna, bylta mér til að losna við möruna og sofnaði aftur.
Þegar ryksugan lenti upp í hornið á glugganum áðan, þetta sem er beint yfir höfðalaginu hoppaði svört, spikfeit könguló út úr rimlunum. Ég skellti ryksugunni á kvikindið og er sannfærð um að það er ekki ávísun á góða drauma að sofa með svona heimilisdýri í svefnherberginu.
Það fylgja því bæði kostir og gallar að sofa við opinn glugga og kannski ég ætti að ryksuga oftar.

Engin ummæli: