10. júní 2007

Fossinn

,,Á hvað minnir fossinn þig?" sagði hún. ,,Fossinn?" spurði ég, um leið og hvítfreyðandi fossinn hvarf bak við hæðarbrúnina. ,,Já, minnir hann þig ekki á neitt?" ,,Nei," svara ég og mér finnst eins og hún verði fyrir vonbrigðum með svarið. ,,Fossinn minnir mig á svuntu" segir hún; ,,svuntuna hennar mömmu, hún setti alltaf á sig hvíta svuntu á sunnudögum og mér finnst fossin eins og hvít svunta með böndum aftur yfir hálsinn."
Mamma hennar gekk alltaf með svuntu sem var smeygt yfir hálsinn og bundin aftur fyrir mjaðmirnar. Kona sem fór fyrst allra á fætur, kveikti upp í kolavélinni, greiddi þykkt kastaníurautt hárið í tvær langar fléttur, vafði þeim eins og kórónu um höfuðið og á sunnudögum setti hún á sig snjóhvíta svuntu sem minnti á neðsta fossinn í ánni. Það er fátt hvítar en fossinn í vatnavöxtum í vorrigningunum.
Jú, framvegis minnir fossinn mig á á svuntu, gengnar kynslóðir og unga fimm barna móðir sem setti upp fosshvíta sparisvuntu á sunnudögum.

Engin ummæli: