9. júní 2007

Blöðin

Ég hef ekki legið mikið í blaðalestri frá því í apríl en í morgun byrjaði ég daginn á að pæla í gegnum Fréttablaðið og hraðlesa fyrirsagnir í Blaðinu, enda komin í þriggja daga helgarfrí. Ég ætla að bæta mér upp skort á hvíldardögum síðustu 6 vikur. Ef einhver stendur í þeirri trú að þriggja vikna langferðir séu hvíldartími leiðréttist það hér með. Það er hörku púl og ummönnun sauðfjár í sveitasælunni er líka púl.
Í Fréttablaðinu í morgun er úttekt á athafnamanni ættuðum frá Flateyri og ekki nema gott um það að segja alveg þangað til blaðamaður greinir okkur frá því að viðkomandi hafi sterkar pólitískar skoðanir ,,rétt eins og Einar móður bróðir sinn" (feitletrun mín, eins og þeir segja í blöðunum).
Fyrir meira en mánuði síðan las ég grein eftir Davíð Þór Jónsson og varð fyrir áfalli þegar ég þessa sömu notkun á orðinu sinn. Ég hef alltaf haft mikið álit á íslenskukunnáttu Davíðs og á svolítið erfitt með að sætta mig við þessa málfræðivillu hjá honum.
Auðvitað á ég að umbera og fyrirgefa mannlega breyskleika og gera ekki kröfur á fullkomnun annara, sérstaklega ekki þegar mín íslensku kunnátta er ekki meiri en það að ég treysti mér ekki til að rökstyðja það að þetta sé ekki málfræðilega rétt með einhverjum tilvitnunum í íslenska málfræði (og nenni ekki að fletta því upp) en fjandinn hafi það ef það má ekki gera meiri kröfur til þeirra sem eru á launum við að skrifa greinar og fréttir fyrir almenning en til misvel menntaðra bloggara sem þenja sig á ,,netinu" og þar að auki slævir það málvitund lesenda að sjá og heyra sömu villurnar hvað eftir annað í fjölmiðlum. Mér persónulega finnst vor dagleg íslenska orðin ansi einhæf og varð t.d klumsa þegar ferðafélagi minn, kona á besta aldri, hafði aldrei heyrt orðið ,,morgunsvæfur".
Hin ýmsu gullkorn á síðum blaða, í útvarpi, sjónvarpi og á bloggsíðum eru auðvitað stundum krydd í tilveruna og mér fannst sagan af merinni Ögðu sem kastaði út um gluggann (Dagbók Þráins Bertelssonar í Fréttablaðinu í dag), og um frambjóðandann sem sat með lífið í öngunum (Njörður P, sami miðill) bráðskemmtilegt og sjálf hef ég lent í að hnoða málsháttum í ambögur en ef þið sjáið eitthvað þannig hér þá endilega leiðréttið mig.

Engin ummæli: