25. júní 2007

Langisjór

Ég kom að Langasjó í fyrsta skipti á ævinni í gær. Einhver misfróður karl eða kona var búin að telja mér trú um að ég kæmist ekki á bílnum mínum þangað og ég hef síðan þá ekki þorað að hugsa til þess að fara þarna inn eftir á eigin vegum.
Fór með rútu í gær og sá ekki betur en þetta væri vegur fyrir alla bíla, eitt vaðið var þó allt að því hnédjúpt svo ég mæli ekki með að fara á Toyotu Yaris ,,sem maður á sjálfur" eins og einhver orðaði það.
Ég get framvegis látið mig dreyma um að fara með tjald og veiðistöng inn að Langasjó og að ganga á Sveinstind í rólegheitum.
Ég sleppti göngunni á Sveinstind því ég er í lélegu göngformi og finnst fátt leiðinlegra en að sprengja mig á að reyna að halda í við þá sem fara hraðar eða vera dragbítur á aðra í göngum, svo ég ásamt hjartasjúklingum og gamalmennum rölti með vatninu og upp og niður skriður og brekkur á þeim hraða sem þeim hentaði og fór ágættlega með mig enda finn ég ekki fyrir neinum álagsverkjum í dag, hvað sem verður á morgun.
Sérkennilegt að ganga í svona landslagi sem rennur undan fæti í hverju skrefi og þegar maður kemur að mosató hugsar maður ,,Jæja, loksins eitthvað fast undir fæti" en sjá, mosaflekkirnir skríða hægt og virðulega með mann niður hlíðarnar líka. Ég var stundum með áhyggjur af sjúklingunum en þeir spjöruðu sig og stoppuðu þegar þeim hentaði. Ef ég get gengið þessa sömu leið þegar ég verð orðin 77 ára þarf ég ekki að kvarta í ellinni.
Ég gleymdi tannburstanum, hárburstanum, GPS tækinu, myndavélin virkaði ekki, ég komst ekki til að kaupa mér landakort, tók með mér fullt af óþarfa mat en eggjabakkadýnan sem Kennarinn gaf mér á föstudaginn var með í ferðinni og framvegis fer ég ekki í skálagistingar öðruvísi en með hana með mér.

Ég mætti í brúðkaup á laugardag í fallega gamla bárujárnsklædda kirkju í Hafnarfirðinum. Þar var fátt sem kom á óvart, þetta var hugguleg athöfn samkvæmt íslenskum nútímahefðum, brúðhjónin hamingjusöm og hugguleg eins og vera ber, brúðurin er held ég búin að finna sinn farvegi við að lappa upp á vansælar sálir í vinnutímanum og hefur haldið sig við heilbrigðan einstakling í einkalífinu síðan hún byrjaði að læra sálfræði.
Allt voða huggulegt og mér finnst alltaf jafn gaman að sjá unga ljóshærða prestinn á hvítu bandaskónum með pinnahælunum í ljósum messuskrúða sjá um athafnir fyrir þessa vinkonu sína sem hún gifti þarna.

Einhvern daginn vona ég svo að ég eigi eftir að heyra fólk sem heldur kirkjubrúðkaup velja eins og einn sálm til að láta syngja við brúðkaupið, þetta er jú trúarleg athöfn en ekki veraldleg og þess vegna finnst mér eðlilegt að þess gæti meira við athöfnina.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hva.. fór ég svona með tímann þinn þarna á föstudagseftirmiðdaginn að þú bara gleymdir öllu ?

En til hamingju með dýnuna. Er ekki mikið mál að ferðast með hana?

Ég kem með þér þarna inneftir þegar....
1. ég verð orðin kennari eða
2. þegar þú verður kominn á stærri jeppa