20. júní 2007

Fuglalíf

Það var of gott veður í morgun til að bæla koddann fram eftir svo ég nuddaði mestur stýrurnar úr augunum klukkan sex, vippaði mér í skóna og dreif mig út að ganga.
Sólin skein á spegilsléttann Kópavoginn, ég deildi morgunsólinni með æðarfuglum, gæsum og vaðfuglum, hundaeigendur og blaðburðarfólk var ekki enn komið á stjá. Undanfarna morgna hef ég hitt æðarhjón með tvo unga við fjöruborðið og ég sá ekki betur en þau væru þarna skammt undan fjörunni í morgun á hægu sundi, æðarhópurinn sönglaði sitt hægláta úÚúúÚú og kjölfar þeirra skreytti lygnan flötin. Skyndilega breyttist sönglið í eitthvað sem líktist meira krruunk, krrruuunnk og ungarnir eins og runnu saman við kolluna, um leið og sílamávur renndi sér niður að þeim. Hann rétti sig ,,tómhentur" úr dýfunni og lagði til atlögu við næstu ungamömmu sem var blikalaus á ferðinni með einn unga. Sá ungi var sýnd veiði en ekki gefin og eftir nokkrar tilraunir í viðbót settist vargurinn á stein og beið færis.
Ég hinkraði við til að sjá hvort honum tækist að veiða sér til matar og veiðilöngun mín lét á sér kræla líka. Áar mínir hefðu verið snöggir að ná í riffil og skjóta kvikindið enda í dauðafæri. En það er bannað að vera með vopn á svæðinu og ég á þar að auki engan riffil svo ég hélt göngunni áfram og eftir stutta stund hélt mávurinn áfram líka matarlaus.
Ég fór í Grasagarðinn í vikunni og horfði á vegfarendur gefa sílamáfunum brauð, þeir eru orðnir uppiskroppa með andarunga og þurfa að láta sér gjafabrauðið nægja og það var stór hópur og mikill vængjaláttur yfir ,,gjafaranum".
Ælti fólk átti sig ekki á því að meðan endurnar slást við mávana um brauðið gleyma þær að gæta unganna og þeir verða auðveld bráð. Það er því bjarnargreiði að gefa öndunum meðan þær eru með unga.
Það sást heldur enginn andarungi á tjörninni í garðinum núna bara nokkrir gæsarungar og þeir eru of stórir fyrir veiðibjöllur fljótlega eftir að þeir koma úr eggjunum.

Engin ummæli: