14. september 2006

Innskrift

Skemmtilegt orð ,,innskrift" en ég nenni ekki að velta mér upp úr merkingu eða merkingarleysi þess að sinni en þetta er það sem ég þurfti að mæta í í morgun kl. rúmlega átta. Þessi tímasetning rústaði nýtilkomnum morgungöngum mínum.(Nema það hafi verið vökurnar í nótt sem rústuðu því, ég vaknaði heldur seint.)
Þessi innskrift mín fólst í því að ég fékka að hitta nokkra starfsmenn Lhs og segja þeim öllum sömu hlutina með litlum hléum og láta tappa af mér blóði. Fyrir ósköpin fékk ég að borga fáeina þúsundkalla án þess þó að hitta aðalmanninn sem ætlar að skera á mig þrjú göt næsta miðvikudag, enda hefði það ábyggilega kostað eitthvað meira en að hitta bara aðstoðar- og svæfingarlækni.
Hjúkrunarfræðingurinn sem hugsaði um innskriftarheilsu mína fann hjá sér þörf á að fullvissa mig um að hann væri fær í sínu fagi, gerði aragrúa af skurðaðgerðum á ári hverju en væri þó kornungur af sérfræðingi að vera (lítið eldri en ég), hún bauðst meira að segja til að sýna mér mynd af honum frekar en ekki neitt. Ég afþakkaði myndasýninguna, sem var nú kannski feill ég held að hana hafi virkilega langað til að sýna mér myndina sem hún var greinilega með tilbúna á skjánum. Kannski er þetta Desktop maðurinn þeirra allra.
Svona í sárabætur ætlar hún að biðja hann að sýna mér á sér andlitið áður en ég sofna á miðvikudaginn. Vonandi passar lýsingin sem hún gaf mér og þá sofna ég örugglega með sælubros á andlitinu.

1 ummæli:

Hafrún sagði...

Ekkert mál. Ég er hvort sem er búin að segja öllum þarna að vinkonu minni finnist þetta ÆÐISLEGAR aðgerðir og svo þarf ég kannski að hafa einhvern með mér sem passar upp á að ég tali ekki bull og vitleysu meðan ég verð uppdópuð. Beri ekki upp bónorðið við gæjan eða eitthvað. Ég meina eftir að hjúkkan fór að lýsa öllum hans mannkostum og útlitnu líka þá....