Ég er búin að lifa hálfgerðu letilífi þessa helgi enda fann ég það þegar ég kom heima að mér veitti ekki af að hvíla mig eftir vinnutörnina áður en ég fór í fríið og svo puðið í fríinu sjálfu. Það var vel þess virði en nauðsynlegt að safna kröftum fyrir næsta frí.
París á föstudag og ég er eitthvað að mikla það fyrir mér að komast til of frá flugvelli á eign spítur. Síðast þegar við fórum vorum við í pakkaferð og þurftum ekki að hugsa um svona smámuni. Þetta verður auðvitað vandræðalaust, ég er bara að hamast við að hugsa fyrir hin fimm líka og það stressar mig. Ég virðist hafa tekið það að mér að skipuleggja það sem þarf og fæ smáhnút þegar ég fer að hugsa um hvort þetta gangi nú ekki upp.
Ég fékk krakkana, þessi tvítugu, til að mæta til mín í gær og setja fram óskir um hvað þau vilja sjá og hvenær svo að við séum búin að skipuleggja okkur aðeins. Við viljum vera laus við að standa á einhverju götuhorni á morgnana og reyna að komast að samkomulagi um hvert á að fara. Ekki það að ég eða þau ætlum að hanga saman í bandi eins og leikskólakrakkarnir gerðu stundum í gönguferðum en eitthvað ætlum við að gera saman öll og það þarf að ákveða.
Mamma er að gugna á ferðinni, ég held að hún sé orðin of þreytt eftir sauðburðinn og getur ekki hugsað sér að skilja bóndann eftir með allt sem er ógert. Það er ekki svo gott að allt sé búið þegar allt er borið.
Það kemur í ljós í kvöld hvað Tölvunarfræðingnum tekst að koma miklu frá og hvort það fæst einhver til að létta undir með það sem eftir verður.
Spáin fyrir föstudaginn segir 15 til 23 stiga hiti og heíðskýrt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli