1. maí 2006

Vortónleikarnir

Ég á erfitt með að sitja kyrr, verð mér hálfpartinn til skammar allstaðar á námskeiðum og fyrirlestrum þegar ég skipti um stellingu á fimm mínútna fresti og iða eins og ég sé með njálg. Þarf helst að hafa skammel með mér til að freistast síður til að skella fótunum upp á herðarnar á þeim sem situr fyrir framan mig eða halla mér upp að öxlinni á næsta manni. En ég var búin að sitja í einn og hálfan tímaí gær án þess svo mikið sem að hreyfa aðra rasskinnina þegar ég áttaði mig á því hvað tímanum leið og líka að ég fann ekki fyrir þreytu af setunni. Ég var á vortónleikum Gospelsystra, Vox Feminae og Stúlknakórs Reykjavíkur.
Kennarar söngskólans sungu einsöng og tveir karlkyns gestasöngvarar tók lagið með hópunum líka. Söngur kóranna var frábær og þar fyrir utan stendur upp úr í mínum huga söngur þeirra Xu Wen, Höllu og Seths með kórunum.
Halla söng fyrir okkur Vilja ljóð og ,,Vilja ó Vilja" hljómar enn í kollinum á mér, Shet söng Purple Rain og sá söngur ómar enn í brjóstinu meðan Xu Wen á sinn stað á hljóð- og sjónhimnunni eftir að hún söng fyrir okkur kínverkst ástarljóð. Söngkonan sjálf er lifandi listaverk og þetta er í fyrsta skipti sem ég heft ánægju af að hlusta á þennan sérstaka kínverska söngstíl.
Þegar allur hópurinn söng svo Oh happy day í lokinn stóðum við að sjálfsögðu upp og klöppuðum með, ég sleppti því þó að taka undir með þeim ég hef grun um að Magga hefði þá heyrt ansi margar feilnótur í söngnum en ég klappaði því fastar enda með verk í axlarliðunum eftir allt klappið frá því í gær.
Hef reyndar eftir áræðanlegum heimildum að stemmingin á seinni tónleikunum í gær, þessum sem ég var á, hefði verið frábær og gestirnir hörkuduglegir klapparar. Ég þarf að læra að flauta almennilega fyrir næstu vortónleika.

Engin ummæli: