Sólin kepptist við að þurka upp úrkomu næturinnar og þokan hafði hörfað yst út á Reykjanes og upp á Skaga svo við fengum óskaveður á leiðinni. Það er fátt betra en morgunsúrefnið á svona dögum.
Sjúkraliðinn gerði mér þann greiða að ganga bara fetið og ég staulaðist á eftir henni sem leið lá alla leið á topp Helgafells sem eru heilir 339 m.y.s.
Þar kvittuðum við í gestabókina en náðum ekki að vera fyrstu gestir dagsins. Einum mættum við sem fór enn fyrr á fætur en við en ef skriflegar heimildir verða látnar skera úr um mætinguna vorum við að kvitta klukkan 9.00 en hann hafði kvittað klukkan 9:25. Þannig að .....
Við stefnum á að verða ,,fyrstu" gestir dagsins á fleiri fjöll.
Ég hef ekki áður gengið á Helgafellið en þar sem Sjúkraliðinn var að fara í sína aðra ferð þangað varð hún að sýna mér ,,gatið" hræðilega sem hún fór niður um í fyrri ferðinni. Gatið reyndist vera nokkuð brött niðurganga undir steinboga og ef sú leið er valin kemur maður niður að sunnanverðu.
Sjúkraliðinn hætti lífi sínu og limum fyrir mig í morgun svo ég gæti sagt frá því að ég hefði farið niður um þetta gat á Helgafellinu sem er auðvitað ógnvekjandi niðurganga fyrir jafn lofthrædda manneskju og hún er. En hún lét sig hafa það og vann þar með einn einn persónulegann sigurinn.
Vorum komnar heim um hálf ellefu og ég skreið beint á koddann til að ná úr mér gönghrollinum og vinna upp hvíldina sem vantaði. Heilsan versnaði ekkert við gönguna, var heldur skárri ef eitthvað er. Það er ekki hægt að segja það sama eftir setuna við tölvuna síðasta klukkutímann.
Kannski ég reyni að vinna persólulegan sigur og yfirvinna fælni mína við rykkúst.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli