Það liggur við að ég muni ekki lengur hvernig þessi síða mín lítur út, svo sjaldan kem ég hingað orðið. En það er brjálað að gera eins og venjulega og lítll tími til að sitja yfir tölvunni. Ég er meira að segja hætt að lesa blogg nema hjá Sjúkraliðanum og þá er nú mikið sagt.
Ég er búin að vera leynivinur alla vikuna og ég held að ég sé ekki búin að standa mig neitt sérstaklega vel í því. Sendi nú samt einhver sms og tíndi svo túlípanana úti í garði til að færa vini mínum í vinnuna. Vinur minn hefur reyndar mest verið að vinan úti í bæ þessa viku svo ég held að túlípönunum hafi verið kastað á glæ.
Af því ég var komin með samviskubit yfir því hvað ég færði mínum vini fátt og lítið miðað við það sem leynivinur minn er búinn að hrúga á borðið hjá mér tók ég mig til í kvöld og pakkaði vel og vandlega inn einu bókamerkinu sem ég er svo hagsýn að eiga ofan í skúffu tilbúin til afhendingar. Ég verð svo bara að vona að viðkomandi noti einhverntíma bókamerki og það væri ekki verra að hún þekkti orkeringu frá hekli. Ég held samt ekki.
Óvissuferði í vinnunni á morgun og ég ætla ekki með, ég ætla í útskriftarveislu hjá tengdadóttirinni sem var að útskrifast af fatahönnunarbraut í Iðnskólanum í Rvk.
Hún verður í óvissu með það út mánuðinn hvort hún fær inni í Listaháskólanum, er önnur af tveim á biðlista þar. Mér finnst nokkuð gott hjá henni að komast þó í það úrtak, það eru ekki nema 10 af einhverjum tugum sem sækja um sem komast inn en nú þarf hún að bíða og biðja þess að einhver hætti við.
Og ég er búin að vaka alltof lengi yfir innpökkun og fíflagangi og mæti tæpilega snemma í vinnu á morgun.
1 ummæli:
Jamm, viltu vera leynivinur minn:P
Skrifa ummæli