Fyrirsögn í nýlegu fréttablaði kveikti á einhverjum hugrenningatengslum um sirkussýningar.
Fyrir nokkrum árum var sífellt talað um Sirkusinn við Austurvöll en nú heyrist sjaldan eða aldrei á það minnst. Þingmönnum virðist hafa tekist að breyta ímynd sinni og væntanlega til hins betra, ætli þeir hafi fengið ráðgjafafyrirtæki til að setja upp prógramm fyrir þingið?
Meðan Alþingi dregur sig í hlé af sirkussviðinu sækja aðrir inn á það og má þá helst telja fjölmiðla og saksóknara. Ekki amalegur kokteill það. Ég er enn of hugsi yfir hraðskák hins opinbera við Bausgsveldið til að koma upp orði þar um en flugeldasýningar fjölmiðla vegna dauðra álfta, uppgjafa hamskera og útrýmingarherferðum frístundafuglabænda verður varla lýst nema með þessu eina orði, SIRKUS.
Hálfdauð álft sást á floti í Hafnarfirðinum og fjölmiðlum fanst fréttaefni að ekki skildi hafa verið leitað að fuglaflensusmiti í hræinu sem greinilega hafði orðið fyrir bíl.
Ég velti því fyrir mér þessa dagana hvort fjölmiðlar beri enga ábyrgð á þvi sem þeir kalla fréttaflutning og þá meina ég þeim áhrifum sem síendurteknar fréttir af ætluðum heimsfaraldri hafa. Börn og aðrir sem hafa ekki dómgreind til að vingsa úr þvælunni það sem er einhver fótur fyrir og gera sér ekki grein fyrir smitleiðum og raunverulegri hættu fuglaflensunnar sitja uppi með hræðslu við eitthvað sem enginn veit hvort, hvernig eða hvenær veður.
(og þar sem blogger.com skammtar mér stærðina á pistlunum verður þetta framhaldssaga)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli