18. desember 2005

Uppgötvun mánaðarins

Það rann upp fyrir mér á föstudag að það væri sennilega bara ein helgi eftir fram að jólum. Fór nú samt og leitaði að dagatali til að fá staðfestingu á þessari uppgötun minni og sjá, þetta reyndist rétt vera.
Ógn og skelfing og ég sem ætlaði að gera þetta og gera hitt fyrir jól. Einkanlega fólst þetta og hitt í því að kaupa jólagjafirnar tvær sem eiga að fara út fyrir höfðuðborgarsvæðið og svo hefð nátturulega verið óvitlaust að skrifa á eitt eða tvö jólakort líka handa þeim sem ég ekki hitti um jólin en þá er það líka upptalið. Svo kom ég heim og sá að það var rétt sem Neminn minn sagði í þetta eins skiptið í mánuðnum sem hann leit hér við, að hryðjuverkaógninni hefði sennilega verð mætt hér og háð stórorusta! Enda Ísland hluti hinna staðföstu þjóða og þýðir ekki annað en standa við stóru orð ráðamanna.
Svona til að gera langa sögu stutta ákvað ég að reyna að klúðra saman yfirbreiðslu á amk. annan sófann og sat yfir hönnun og saumaskap tímunum saman á laugardag. Sá allt í móðu seinnipart dags en sófinn var þá kominn í jólakjólinn og eilífðarlopapeysa Tölvunarfræðingsins bíður bara eftir rennilásnum.
Ég er farin að hallast að því að það sé einfaldara að sauma bara mynstur út í peysur og vera ekki að klúðra því á prjónunum. Auðvitað hefði þetta verið minna verk ef ég hefði fundið mér þægilega uppskrift og fylgt henni í staðin fyrir að búa til nýtt munstur, rekja upp og prjóna til skiptis meðan ég vara að prófa mig áfram. En munstrið er orðið þokkalegt, þökk sé lykkjusporinu sem getur sko alveg gert kraftaverk!

Engin ummæli: