Meirihluti í búa í þessu húsi eru gæludýr. Þau eru misjafnlega mörg eftir aðstæðum, talningar í fiskabúrinu sýna stöðugt minnkandi stofnstærð og friðun hefur ekki skilað neinum breytingum þar á, kötturinn á efrihæðinni taldi sig vera orðinn kjörkött og tók dágóðan tíma að koma honum í skilning um að hann ætti að ganga beint út um útidyrnar þegar hann vogaði sér inn um kattalúguna í kjallaranum. Í morgun leit hann á mig með æðruleysi í svipnum um leið og hann gekk fram í forstofu og beið eftir að ég opnaði, að vísu gjóaði hann augunum á matarskálar heimiliskattanna um leið og hann gekk framhjá en út fór hann. Önnur dýr hafa svo sem ekki verið að flytja inn hjá okkur hingað til og þar sem enginn á heimilinu er í grunn- eða leikskóla hafa engin smádýr borist þaðan. Breyting varð þó á dýrahaldinu i dag.
Nýkomin fram og enn með stýrurnar í augunum heyrði ég ákveðið og staðfast mjálm framan við svefnherbergisdyr Tölvunarfræðingsins sem ég reyndar var nýbúin að loka kyrfilega vegna hurðarskella í rokinu sem barst inn um gluggana. Við dyrnar sat kattaprinsinn og krafist inngöngu enda á hann hálft rúm í herberginu og góðan kodda með samanbrotnu mjúku flónelslaki breiddu yfir. Það verður að viðurkennast að þegar ég gerið mig líklega til að opna fyrir prinsinum runnu á mig tvær grímur við að sjá stóra og feita mús liggja á gólfinu við dyrnar og eins og á öðrum örlagastundum runnu hratt ýmsar myndir og hugsanir gegnum hugann.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli