það sýndi sig í gær að maður á ekki að hrósa happi of snemma. Seinnihluti dagsins fokkaðist upp í rugl, bull og vitleysu, innkaupaferðir, þvottavélaflutning, flísabrot, ískápsburð, hringferð með úlpu í Hafnarfjörðinn og eftir því sem leið á daginn hringlaði meira og meira í hausnum á mér. Um tíuleitið heyrði ég stanslaust suð og bjölluhljóm og var alveg hætt að gera greinarmun á símahringingum og óhljóðunum í höfðinu á mér.
Gleymdi þar af leiðandi að þvo það sem ég ætlaði að þvo og að gera tilraun með að vatnsverja úlpuna mína. Hugga mig við að uppþvottavélin tekur sig vel út í innréttingunni þó að ég hafi ekki náð að tengja vatnið, ég held það þurfi pípara í það og ég þarf að hringja í píparann og skæla aðeins svo hann kunni ekki við annað en redda þessu.
Það haugrignir og þess vegna er ég sallaróleg með að koma mér af stað.
Síðast þegar ég frétti af sjúkraliðanum var hún á leiðinni á næturvakt, ekki búin að pakka snitti en tína allt til í haug á stofugólfinu sem þær mæðgur ætla með með sér.
Ég þekki Sponsið illa ef hún raðar nokkru í tösku meðan mamma hennar sefur til þess er teiknimyndarásin nýfengna of spennandi og ferðin okkar ekki nógu spennandi.
Svo ég ætla að ganga frá í vinnunum fyrir hádegið og klára svo í rólegheitum að troða í töskuna.
Skrítið hvernig hlutir gufa upp af borðum og bekkjum hérna án þess að nokkur maður hafi komið nálægt þeim.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli