Tók ekki nema eitt upp með rótum til að flytja það heim í nestisboxinu mínu. Sá svolítið eftir að hafa ekki tekið upp fleiri svo ég bætti úr því í dag. Rændi afleggjara af jarðaberjalyngi á opinberum stað þar sem er stranglega bannað að tína plöntuhluta og fræ.
Ég ákvað fyrir langa löngu að þeir angar af lynginu sem yxu út á gangstíg og væru troðnir undir manna og fugla fótum væru betur komnir í potti hjá mér og af þvi lyngið mitt blómstrar svo einstaklega fallegum bleikum blómum úti í garði núna náði ég mér í annan anga.
Fór svo í kvöldmat hjá Píparanum og sá í óræktinni í garðinum, innan um sáðgresið og skriðsóleyjuna uxu plöntur sem ég gat hugsað mér að eiga. Plöntuskófla var í bílnum og nú þarf ég að setja niður. Það er víst ekki nóg að rífa upp.
Fékk áframsent sms áðan, ég held að upphafið hafi vantað á það
,,tað var fint, forum að snorka og svo ætludum vid i solbad en tad for ad rigna! Arg garg hitti otrulega sætan apa! Erum ad fara ad keyra i 13 tima a morgun, tarf ad vakan 4 i nott, gaman."
Í fyrradag var smsið eitthvað á þessa leið
,,erum komin a vesturstrond zansibar, vegirnir alveg horror!! strandlif a morgun :) hitti fullt af skjaldbokum i dag og ein teirra beit mig. Tær eru nu samt mest sætar"
Mig langar enn til Afríku og er ekki búin að fyrirgefa Tölvunarfræðingnum að vilja ekki pota mér ofan í bakpokann og hafa mig með!
Ógeðslegur hiti og svo mikill raki að fötin þorna ekki eftir þvotta, tjaldað á glerhörðum sandi sem smýgur um allt, bítandi skjaldbökur og akstur í höstum trukk á hræðilegum vegum. Ég er viss um að þetta er frábært.
Tölvunarfærðingurinn minn kom online einn morguninn meðan þau biðu eftir ferju til Zansibar og hún kvartaði svolítið undan hita, raka og sandi en þegar ég bauð henni bara að skipta við hana sagði hún bara ,,NEI" Svo ég reikna með að henni leiðist ekkert.

Engin ummæli:
Skrifa ummæli