Ákvað í morgun að sunnudagur væri ágætur dagur til að hreinsa upp fjögura vikna ryk úr íbúðinn. Skrúfumeistarinn og tilvonandi grafíski hönnuðurinn kom við í dag og benti mér á að það væri allt í lagi að ryksuga gegnum skápinn niður stigann og herbergið hans líka þegar ég ryksugaði íbúðina. Ég sagði honum að ég hefði ekki ryksugað í margar vikur og laug engu, ég hef bara rykmoppað. Bjargaði því við í dag en afrekaði ekki mikið meira. Jú fann mér reyndar fjall og ákvað að labba í hálftima upp og sjá svo til hvað ég væri lengi að labba niður aftur. Hálftími í akstur að fjalli hálftími í labb upp og korter niður. Erðanú.
Það væri haugalýgi að segja að ég hefði eitthvað gaman af því að pína mig upp brekkur, höktandi, móða og másandi, ég vildi heldur rölta í rólegheitum úti í móa eða niðri í fjöru og reyna ekki nokkurn skapaðan hlut á mig en ég hugga mig við að vöðvarnir í fótunum verði stæltir og stinnir og kannski bara magavöðvarnir líka þó það sjáist nú seint undir allri mýktinni sem liggur yfir þeim.
Það þýðir ekkert að væla, vola og vorkenna sér núna og horfa svo á eftir hinum ganga á Hælavíkurbjargið i sumar.
Kláraði svo Belladonnaskjalið. Æi ég hef eytt tímanum í skárri hluti.
Sjúkran ætlar að pína mig upp á Esjuna á morgun. Úff, púff!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli