19. desember 2004

Sólstöðublót

,,Allt fram streymir.. " og hver atburðurinn tekur við af öðrum.
Próf, útskrift, útskriftarveisla og sólstöðublót allt gengur þetta yfir og sumt of fljótt.
Var á sólstöðublóti og fékk að heyra sýnishorn af rússneskri þjóðlagatónlist og síðan sýnishorn af íslenskum rímnakveðskap eins og hann gerist bestur.
Þó kvæðamaðurinn hafi ekki kunnað kvæðin utanbókar og gleymt gleraugunum heima, sumt orðið snubbótt og annað slitrótt er ekki um að villast að hann er einn besti kvæðamaður landsins og hefur reyndar kveðið sig út fyrir landsteinana.
Við hefðum viljað hlusta lengur en Sjúkraliðinn þurfti að mæta á næturvakt, dóttir hennar þurfti að fara heim til að passa og sofa og ég og gamli maðurinn ákváðum að fara bara heim á skynsamlegum tíma.
Ég á von á að það skili morgundeginum betri en ella. (þetta er ekki misritun á Ella heldur er þetta orðið ella með hörðum ellum eins og í ellegar.)

Ég er búin að eyða eins og óð manneskja þessa síðustu viku. Það gerir óvænta veislan sem átti ekki að vera en varð þó.
Jólagjöfin handa Stúdentnum breyttist í útskriftargjöf og núna þarf ég að finna handa honum jólagjöf sem passar við efnahaginn. Eins gott að það á að hækka launina aðeins um áramótin.
Annars gaf ég vinkonu minni og dóttir hennar jólagjafirnar þeirra í kvöld og í dag gaf ég skæruliðunum hans bróðir míns dót sem ég tilkynnti þeim að væru jólagjafirnar þeirra frá mér. Ég veit að þau verði búin að eyðileggja þær um jól en hvers vegna ekki gefa jólagjafir þegar manni dettur í hug og sleppa þessu umbúðafargani.
Annars finnst mér ég eigi og megi vera á egóflippi fyrir jól og er sæl og ánægð með bolinn sem ég keypti mér á egóflippinu fyir helgina. Hann er ROSALEGA fínn :D

Sofnaði í gærkvöld við tölvuleik nokkurra núverandi og fyrrverandi menntaskólanema. Þau voru með leik sem mig minnir að heiti ,,sing star" og þau sungu og þau sungu meira og svo sungu þau mig í svefn. Hrökk upp annað slagið, ekki við sönginn heldur við að gestirnir (og gestgjafinn) sem voru í næturveislunni héldu að fatageymslan væri enn í herberginu mínu og það smellur óþægilega hátt í hurðarhúninum þegar reynt er að opna. Annars svaf ég vært og rótt af mér veislulokin.

Dreymdi að ég væri komin austur á land.
Stóð og horfði á fjallið mitt og sá að einhverstaðar bak við það var farið að gjósa. Það spruttu kolsvartir reykjarbólstrar upp handan við það og þeir tóku á sig myndir. Myndir fljúgandi hrafna sem leystust svo upp um það leyti sem næstu bólstur sprakk upp úr fjallinu.
Tvisvar tóku þeir á sig hrafnslögunina en sá þriðji tók á sig einhverja aðra lögun sem ég man ekki hver var. Í draumnum stóð mér stuggur af þessum svörtu myndum á himninum.

Engin ummæli: