Tilkynnti það á fyrirhádegisvinnustöðunum mínum í gær að ég væri komin í jólafrí og er að hamast við að njóta þess þangað til ég mæti í vinnuna klukkan eitt. Þar verður lítið unnið í dag enda verð ég með súrefnisgrímu til að kafna ekki í skötulyktinni.
Skata étinn áður en við förum heim úr vinnunni svo er stefnan tekin í blysgöngu á Laugaveginum og ég þarf að kíkja í eina búð með Tölvunarfræðingnum.
Hún skipaði mér að fara heim og hafa fataskipti eftir skötuveisluna, ætlar ekki að þurfa að skammast sín fyrir skötulyktandi mömmu í búðum þetta árið.
Ég skil nú ekki þessa nefviðkvæmni hjá henni og fleirum. Fór i búð í fyrra beint úr skötuveislunni og fékk komment um að ég hefði ÖRUGGLEGA veriði í skötuveislu.
Sama viðkvæminin er í hinu fyrirtækinu í húsnæðinu sem vinnan er í. Þau eru komin með nefklemmur klukkutíma áður en byrjað er að sjóða skötuna og er þó lokað á milli fyrirtækja.
Núna ætla ég að sýna þá fyrirhyggju að fara með úlpuna mína út í bíl og geyma hana þar meðan er verið að elda.
Er annars loksins komin í jólaskap. Setti meira að segja upp ljósleiðarajólatréð sem góð kona gaf mér í eftirájólagjöf í fyrra og það er frábært. Nota það í staðinn fyrir leslampa á náttborðinu. Annars stendur til að hafa alvöru jólatré í stofunni þetta árið, það á bara eftir að fara og finna eitt nógu lítið handa okkur.
Eftir að versla eitthvað smotterí og þarf svo að fara í fyrramálið og ná í eina jólagjöf. Jólagjöf sem ég veit ekki alveg hvernig verður tekið en maður verður alltaf að hafa einhverja spennu í þessu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli