23. desember 2004

Einelti

Fyrir nokkuð mörgum árum síðan fór yngra afkvæmið mitt á námskeið hjá ónefndu íþróttafélagi.
Um jólin það árið fékk hann jólakort frá félaginu, gaman að því að félagið lætur sér annt um krakkana sem fara á námskeið hjá þeim.
Næst sumar fór hann ekki á námskeið hjá þessu íþróttafélagi en í desember fékk hann samt jólakort frá því.
Þriðja sumarið kom hann ekki nálægt neinni starfsemi hjá þessu íþróttafélagi en um jólin fékk hann jólakort frá þvi!
Síðan komu fjórðu jólin og enn fékk hann jólakort.
Fimmtu jólin kemur kort.
Sjöttu jólin fær hann kort.
Og sjöundu jólin fékk hann kort.
Núna er pósturinn hættur að áframsenda póstinn okkar á nýtt heimilisfang og ég hélt við værum sloppin við þessar kortasendingar.
En þegar ég fór að athuga hvort einhver íbúi þessa húss ætti bréf sem kom inn um lúguna hjá okkur í dag og komst að því að enginn með þessu nafni býr í húsinu kíkti ég í umslagið og sjá, er ekki íþróttafélagið enn að lauma kortum á okkur. Núna bara með breyttri utanáskrift.
Ef þetta er ekki einelti hvað er þetta þá?
Ég HENTI helv. kortinu. Þetta er farið að minna á Glám og jólasveininn. ,,Á fyrsta degi jóla hann... færði mér...."

Það mætti halda að það væri auðvelt að hringja í téð íþróttafélag og biðja starfsmenn þar um að hætta þessum ofsóknum og ég reyndi það eitt árið.
Var þá vísað á að hringja í framkvæmdastjórann sem var með gsm númer sem mér gekk illa að ná sambandi við og nennti þessu bara ekki lengur.
Ég held að við höfum lent í jólakortaáskrift sem er ekki hægt að segja upp frekar en rískissjónvarpsáskriftinni.
Mig langar nú samt orðið til að komast í bókhaldið hjá þessu félagi og sjá hvað er búið að eyða miklu í jólakort og frímerki síðustu árin! Varla eru þessar sendingar á okkur einsdæmi.



Engin ummæli: