Annað kvöld þarf ég að flýja hús. Hér verður haldin afmælisveisla sem mér er ekki boðið í og nærveru minnar ekki óskað. Þar sem unglingurinn minn er að halda upp á 21 árs afmælið sitt held ég að það hljóti að vera óhætt að leyfa foreldralaust partý.
Í morgun voru sem sagt 21 ár liðin síðan mér var réttur langur og mjór drengur á fæðingardeild Landspítalans.
Nýbúið að losa hann úr hengingartaki vel vafins naflastrengs um hálsinn og hann leit ekki út fyrir að hafa fengið mikla næringu í móðurkviði.
Næturvaktir, kaffi og níkótín er víst ekki heilsusamleg blanda á meðgöngu. Eyrun stóðu eins og trektir út frá höfðinu og nefið var það sem mest bar á í kinnfiskasognu andlitinu.
Ég féll auðvitað strax fyrir drengnum en tjáði nú samt pabba hans að hann væri ljótur litla greyið.
Litarhátturinn lagaðist fljótlega þrátt fyrir illa meðferð, fyrst á vökudeild þegar hann fór í blóðskipti og sýndi þar ,,góð lífsmörk" en það þýðir grátur eins og lungun leyfa og sem betur fer heyrði ég þau merki ekki og seinna á barnadeild þar sem hann sýndi svo góð ,,lífsmörk" þegar var verið að setja upp nál til að dæla í hann meira blóði að hann naflaslitnaði við grátinn.
Stráksi var ekkert sérstaklega vær en dafnaði þó það vel á móðurmjólkinni að hann var kominn með 2 undirhökur eftir nokkrar vikur og smá saman fóru eyrun að færast nær og nær höfðinu og liggja þétt upp við það núna eins og vera ber.
Þar sem pabba hans hefur aldrei verið lagið að þegja þegar þegja þarf hefur hann þó nokkrum sinnum tjáð syninum hvaða orð það voru sem mamma hans hafði um hann þarna á fæðingardeildinni um árið.
Ég vil meina að hann hafi þau nú ekki orðrétt upp eftir mér og það sé mikill munur á að segja ,,ósköp er hann ljótur" eða að segja ,,hann er ljótur" það er áherslumunur á þessu.
Hvaða ástæða er svo sem til að vera að ljúga upp á nýfædd börn. Þau eru flest ljót, krumpin, hrukkótt, rauð og grett og foreldrunum þykir vænt um þau þrátt fyrir það. Það hljóta að vera bestu meðmæli sem börnin geta fengið með foreldrunum amk. er ekki hægt að segja að þeir falli fyrir útlitinu.
En í nýlegum umræðum um þessa skoðun mína á útliti sonarins strax eftir fæðingu tjáði ég honum að honum hefði farið mikið fram útlitslega síðan og með þessu áframhaldi yrði hann mjög fallegur gamall maður.
Og svo við höfum þetta nú allt á hreinu tek ég fram að þessi langi, mjói, ljóti ungi minn er orðinn að löngum, mjóum, huggulegum ungum manni í dag.
Svo er hann auðvitað svo fjand.. vel upp alinn líka!
Sýnishorn af hugmyndfræðinni sem höfð hefur verið til hliðsjónar við uppeldi afkomenda minna.
Vögguvísur sem Hafrún lærði í uppvextinum.
Það á að strýkja stelpuna
stinga henni ofan í forina.
Loka hana úti og lemja´na
og láta hann Bola éta´na.
Það á að strýkja strákaling,
stinga honum ofan í forarbing.
Loka hann úti í landsynning
og láta hann hlaupa allt um kring.
Þetta er birt með fyrirvara um ritun og greinamerki. Hef aldrei séð þetta á prenti þó ótrúlegt megi viðrast.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli