22. september 2004

,,Það var eitt kvöld"

Það var eitt kvöld að mér heyrðist hálvegis barið,
ég hlustaði um stund og tók af kertinu skarið,
ég kallaði fram, og kvöldgolan veitti mér svarið:
Hér kvaddi Lífið sér dyra, og nú er það farið.

Sagði Jón Helgason hérna um árið.

En Hafrún segir takk fyrir mig GVÓ. Létti af mér þungu fargi í kvöld og ef ég stíg á vigtina í fyrramálið er ég viss um að það sést á henni.

Er búin að komast að þvi að vinir eru til þess gerðir að misnota þá. Geri það líka óspart!
En svona er að eiga fáa vini og vanda valið, þeir taka af manni bágtið stundum.

Annars er heilsan að lagast hægt og bítandi, vonandi. Eftir þvi sem lengra líður frá maraþon skólasetunni rétti ég úr kútnum. Síðasti dagurinn í ,,allan daginn" vinnunni á morgun og ég er ákveðin í að taka frí á föstudag. Held meira að segja að ég sé búin að sanna það fyrir sjálfri mér að ég geti lært hérna heima. Tókst að leggja undir mig eldhúsið í kvöld við það. Er samt að velta mér upp úr helginni. Á ég að vera eða ekki vera hérna eða fara í vinnuna með námsefnið og breiða úr mér þar. Ótímabærar vangaveltur en prófaði reyndar að sitja eftir í vinnunni í dag og draga bara skólabækur upp á skrifborð þegar ég var búin að stimpla mig út. Það kom í ljós að það þurfti að tala við mig um vinnutengd málefni af þvi ég sat þarna og auðvitað svara ég í símann úr þvi ég sit við hann. Hélt kannski að mér hentaði að sitja í vinnuumhverfinu og láta eins og námið væri bara vinnan og jú að sumu leyti virkar það.


----------------------------------------------------------



Einu sinni ætlaði ég að læra Áfanga. Það gengur hægt, kann samt tvö erindi
Rifja þetta upp þegar ég keyri ,,heim"


Vötnin byltast að Brunasandi,
bólgnar þar kvikan gljúp;
landið ber sér á breiðum herðum
bjartan og svalan hjúp;
jötuninn stendur með járnstaf í hendi
jafnan við Lómagnúp,
kallar hann mig, og kallar hann þig...
kuldaleg rödd og djúp.

Bætti svo öðru erindi við í vor eftir að við röltum í rigningu og roki um Snæfellsnesið. Rok og rigning í fjöruferðum er frábært. Var ég kannski einhverntíma búin að minnast á það?

Nú er í Dritvík daufleg vist,
drungalegt nesið kalda;
Sjást ekki lengur seglin hvít
sjóndeildarhringinn tjalda;
Tröllakirkjunnar tíða söng
tóna þau Hlér og Alda;
Fullsterk mun þungt að færa á stall,
fáir sem honum valda.



Þarf þá að bæta einu við í vetur, kannski bara því um Kjöl. Ég er jú búin að koma þar líka.
Maður verður að fá eitthvað mótvægi við reikningsskilin.














Engin ummæli: