20. september 2004

Lélegur sjálfsþurftarbúskapur

Þoli ekki að finna ekki verkfæri til að framkvæma það sem þarf að gera. Uppþvottavélinni á bænum var troðið á sinn stað og átti að tengja. Gekk ágætlega þar til kom að því að tengja vatnið inn á vélina. 3/4" ró gengur ekki upp á 1" krana það bara er nokkuð augljós mál. Eftir dúk og disk og nauðungar handuppþvott gafst ég upp og ákvað að redda málum úr því enginn annar gerði það.
Heimsótti píparann sem á hauga af fittings og krönum og tengikrönum og tengiróm og minnkunum og stækkunum í hillunum hjá sér og fór fyrir rest heim með formúffu sem búið var að pakka á einvherju sem myndi örugglega passa við slönguna að uppþvottavélinni. Sem það gerði, ekki við öðru að búast þegar ég og píparinn leggjum okkur fram við að leysa málin. Vandamálið er bara frágangur fyrri ,,pípara". Minnkunin okkar er of löng í skápinn, hún rekst í rörin og það vandamál væri hægt að leysa með því að snúa krananum fyrir uppþvottavélina en til þess vantar VERKFÆRI. Það er ekki einu sinni til skiptilykill á þessum bæ.
Borvélin sem ég fékk lánaða og átti að skrúfa upp festingar fyrir gardínunum í kjallaranum gerði ekkert af sjálfsdáðum svo ég gafst upp á endanum og ætlaði að hjálpa henni við það. Hún reyndist nota aðra gerð af borum en eru til á þessum bæ og það fylgdi henni ekki 5 mm. steinbor.
Mig langar í borvél í jólagjöf. Almennilega borvél með höggi. Ekki hobbýborvél sem er ekki hægt að nota nema til að skrúfa saman módel. Skiptilykil og borasett, skrúfbúta væri fínt að fá í jólakortunum.

Það átti að læra helling í kvöld. Það var svo miklu minna en til stóð. Lærði samt hvernig formúffa lítur út. Kannski ég verði bara pípari þegar ég verð stór.



Engin ummæli: