Jæja skólinn byrjaður og stressið ekkert að lagast. Og þó. Náði ákveðnu æðruleysi í dag. Það sem ekki klárast fyrir helgina bara klárast ekki og ekki orð um það meira.
Skólinn byrjaður en námið ekki, fyrsti dagurinn fór nefnilega í að kenna okkur að læra. ;) Ekki veitir víst af. Er búin að sjá að ég hefði átt að fara á svona fyrirlestur eða námskeið fyrir löngu og nýta mér það á álagspunktum í vinnunni.
Stundskráin sagði, kennsla frá þrjú til sjö en það var misritun og ég var laus fyrir sex. Sem þýddi að ég græddi klukkutíma sem var hægt að nota til að fara með dóttirinni í Bónus og gera mánaðamótainnkaupin eins og hún var að tala um. Dreif mig heim og til að nýta tímann vel henti ég karföflunum í pott og grænmetinu í ofninn svo við þyrftum ekki að gera annað en sjóða fiskinn þegar við kæmum heim. Millifærði verslunarpeninginn, greip tossalistann og hljóp út. Var búin að vera í Bónus í góðann háftíma þegar einhver hringdi í mig og talið barst að kvöldmatnum. Mundi þá að ég lækkaði ekki undir kartöflunum. MUNDI það þó. Rauk heim og lét afkvæmið um restina af verslunarleiðangrinum.
Þurfti að sjóða aðrar kartöflur, þau vilja ekki svona vel grillaðar kartöflur. Skil það ekki.
Á fyrirlestrinum í dag var talað um aðferðir við að leggja hluti á minnið. Gerðum æfingu. Talin upp 20 orð og við áttum að finna okkar aðferð við að ,,muna”. Náði 18 af 20 og þóttist góð. Meira að segja í réttri röð!
Er alveg viss um að þessi minnisæfing bjargaði okkur frá eldsvoða í dag. Eða þannig. Á maður ekki að trúa á mátt námsins.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli