17. ágúst 2004

Skólar og námskeið

Komin með skólafíkn á háu stigi. Allir skólar að auglýsa kvöldskólann og mig LANGAR til að læra. Svei því.
Búin að stelast oft inn á heimasíður skólanna í dag til að skoða námsframboð og verðskrár. Eftir ýtarlega athugun er ég búin að komast að því að þetta sé of dýrt fyrir mig og best að halla sér bara að því að prjóna lopapeysu í vetur. Dugir varla veturinn í eina lopapeysu ef ég þekki minn handavinnuhraða rétt.
Það væri nú samt ógeðslega gaman að taka eins og einn eða tvo áfanga í einhverjum skólanum á haustönninni. Sótti reyndar um diplóma nám í HR og fæ ekki svar þar fyrr en allir framhaldsskólarnir eru hættir að innrita svo ef ég fæ nei þar geri ég ekki neitt. Og þó. Um og eftir mánaðamót fara frístundanámskeiðsbæklingarnir að hrynja inn um lúguna. Myndlistaskóli Kópavogs, Kvöldskóli Kópavogs, Mímir, Námsflokkar Reykjavíkur og allt þetta. Allt saman ofsalega spennandi og sjálfsagt fell ég í þá freistni að gera eitthvað skemmtilegt og slá á frest enskunáminu sem ég er alltaf á leið í. Enskunámið er hagnýtt og þess vegna er því frestað sí og æ.
Mig vantar stóra vinninginn í happdrættinu eða lottóinu sem ég kaup aldrei miða í svo ég geti hætt að vinna (amk. minnkað það) og lært allt það sem mig langar til.
Langar enn að læra latínu, balderingu, þjóðbúningasaum, jarðfræði, skopmyndateikningu, ensku, frönsku, og um það bil 1oo hluti í viðbót.
Hvernig var nú leiðindasöngurinn úr barnaskólanum.
,,Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær, ................
Ofsalega leiðinlegt en hittir svo í mark á gamalsaldri.





Engin ummæli: