21. ágúst 2004

Ráfað um bæinn á menningarnótt

Mætt á menningarnótt. Bíllinn skilinn eftir heima, enginn sem ég þekki á leið í bæinn á sama tíma svo ég notaði almenningssamgöngur.
Gat ekki ákveðði hvort ég ætti að fara snemma og svo heim og aftur í kvöld eða hvort ég ætti bara að leggjast í útlegð og koma kannski heim á morgun svo ég var bara við öllu búin og tók með mér regnbuxur og sjóhatt og klæddi mig í samræmi við veðrið í Kópavogi. Það voru mistök en það mátti bæta úr þvi með að fækka fötum þegar sólin fór að skína.

Ráfað um stefnulaust eða stefnulítið. Svöng og stefnan tekin á eitthvað ætilegt. 10 -11 reynist best til að seðja sárasta hungrið. Svo stefnt á Listasafn Íslands, krókótt leið með stoppum við kunningja og vini sem berja í öxlina á mér til að fá athygli. Veitir víst ekki af því ég er sifjuð. Veit ekki hvað það á að þýða en svona er það nú samt.

Komst á Listasafnið og náði engum listunnanda með mér. Íslenskuneminn var að ryksuga kringum sig og alla meðleigjendurna, en ég hringdi aldrei í Spunakonuna til að gá hvort hún væri til í menningu. Komst nefnilega að þeirri niðurstöðu að ég væri sjálf bara góður félagsskapur og ekki hætta á að ég tíndi mér í mannþrönginni og þyrfti aldrei að spyrja hvort við ,,ættum að kíkja á.."
Lofaði Endurskoðandandum að vera menningarleg fyrir okkur báðar og er að reyna að standa við það. Sá fljótt að mér hefði ekki veitt af skrifblokk með mér til að punkta hjá mér nöfnin á þeim listamönnum sem ég er alltaf að skoða verk eftir en man aldrei nema viku á eftir hvað þeir heita. Er samt alltaf eða oft að sjá sömu myndir eftir sömu menn á sýnigum listasafnsins. Þórarinn B., Kjarval að sjálfsögðu, Jón Stefánsson og þessa gömlu. En í þetta skiptið var blanda af yngri og eldri verkum þau nýjustu frá þvi á síðasta ári enda heitir sýningin Umhverfi og náttúra svo það er tilefni til að dusta rykið af gömlu og blanda því í nýtt.
Óneitanlega svolítið gaman að sjá ,,Flug" Helga Þorgils (álft, nakinn maður og nakið barn) vð hliðina á ,,Álftum" Jóns Stefánssonar. Þegar ég fer að rifja upp myndirnar þeirra eru finnst ég mér sjá sama niðurnjörfaða stífleikann hjá báðum. Svo finnst mér ,,Stórisjór og Vatnajökull" hans Þórarinns alltaf jafn heillandi í hvert skipti sem ég sé hana.
Tónleikar í Listasafninu voru ekki á dagskrá fyrr en um kvöldið en ég fékk held ég æfinguna í kaupbæti með kaffinu. Notalegheit að sitja undir glerþakinu á efstu hæði með kaffið sitt, einsöngsæfingu á neðstuhæðinni og skoða japanska túrista í bland með listaverkunum.
Rápaði svo í gegnum Þingholtin yfir á Laugaveginn, skoðaði vinnustofu hjá grafíklistamönnum, frábærar myndir. Velti þvi fyrir mér hver hún sé þessi svokallaða gafavörulist og hvort ég sjái mun á alvöru list og gjafavörulist þegar ég fer í búðir eða gallerý sem selja listaverk eða hvort þar sé eingöngu gjafavörulist. Sá þetta orð gjafavörulist einhverstaðar og er ekki með á hreinu hver munurinn er. Listamenn útskrifaðir úr listaskóla, ætli þeir geri alvörulistaverk en ekki gjafavörulistaverk? Rölti svo inn í eitt gallerýið sem er stútfullt af listagjafavöru og viti menn eiga ekki grafíkerarnir sem ég var að dást að verk þarna.
kúrsinn settur á bryggjutónleika, Írafár að byrja svo krókurinn er tekinn gegnum Kolaportið, ráfað um og flett bókum, tími ekki að kaupa ljóðabækurnar sem ég fann og gömul skáldsaga frá miðri síðustu öld lofar góðu en ég læt mér nægja að lesa fyrsta kaflann við undirleik Írafásr, enda enginn sölumaður sjáanlegur. Kannski hefði ég bara átt að fá hana lánaða og skila henni um næstu helgi. Þegar ég rölti svo út á bryggju virðast allir vera að fara þegar ég fletti dagskránni sem ég loksins fann á Grænum kosti sé ég að Brimkló er að byrja að spila. Nenni ekki að fara neitt annað meðan ég bíð eftir Egó svo ég stend þarna og hlusta á Björgvin syngja eitthvað sem ég man stundinni lengur hvað er. Jú misþyrmingin hans á ,,Spáðu í mig" er eftirminnileg og svo mætti Diddú og tók með honum eitt lag. Það bjargaði þessum Brimklóarhluta tónleikanna.
Ego spilar og Bubbi syngur og dansar um sviðið, er hann vanur að dansa svona á tónleikum. Spyr sá sem ekki veit. Hann hoppar fram og aftur og sveiflar sér í hringi, vantar eiginlega bara ballerínuskóna. Ég fer að hugsa um sviðsframkomuna hjá Björk á tónleikum með Tappanum hérna í den. Sláandi líkt.
En hvort sem Bubbi er nú farinn að stæla Björk í dansinum nær hann upp stemmingu á bryggjunni og telur svo í flugeldasýningu í lokin.
Flott flugeldasýning að venju og þá er að koma sér heim úr bænum. Það er þrautin þyngri. Finn út að strætó stoppar í Vonarstrætinu en það vissu nokkurhundruð manns líka og mér líst ekki á að 150 komi neitt á næstunni og þó hann komi kemst hann þá í burt?
Labba svo á stað að finna aðra stoppistð, 115 fer framm úr mér við Miðbæjarskólann en ég fer fram úr honum aftur við Skothúsveginn og er á undan alvega að Snorrabrautinni. Þar fer umferðin að ganga sinn vanagang og ég haltra að strætóskýlinu á Kringlumýrarbraut og næ vagni þar eftir stutta bið.
Gangan frá skiptistöðinni og heim er svo alveg fj.. erfið og útséð um göngur á sunnudag. Fótalaus fer ég að sofa stútfull af menningu.





1 ummæli:

António sagði...

Obrigado pela visita ao Vila Dianteira! Espero que tenha gostado ;).