20. ágúst 2004

Handavinna og lestur

Var að lesa í gær og handavinnast er svo stíf í herðum og hálsi í dag að ég tek reglulega flugæfingar í vinnunni til að reyna að ná þessu úr mér. Reyni að nota tækifærið þegar enginn er nálægt mér en er ekki alveg viss um að það takist. Veit ekki alveg hvað samstarfsfólkinu dettur í hug þegar ég set kryppu á bakið, sný hausnum til og frá og byrja svo að rúlla öxlunum í stóra og smáa hringi eins og ég er látin gera í leikfiminni stundum.
Dans-teigju-leikfimitímarnir í Baðhúsinu á laugardagsmorgnum myndu trúlega losa mig hratt og örugglega við þennan stirðleika og vöðvabólgu en held að þeir séu ekki byrjaðir aftur eftir frí og ég ætla ekki að fara í leikfimi fyrr en eftir næstu viku.
Þannig að það er skrifborðsstólsleikfimi í dag og ef ég slepp vel verð ég ekki send á bráðamóttöku geðdeildar í lok vinnudags.

Sól og sumar og ég sit ein í matartímanum í vinnunni, allri boðnir í snarl hjá vinnufélaga í frii sem vill svo til að er hérna rétt hjá. En ekki hægt að stilla símann á símtalsflutning og þar af leiðandi ekki hægt að læsa hérna og ég sit og bíð eftir að síminn hringi. Hringir ekki baun og enginn kemur heldur. En allt í lagi með það ég tek bara 10 mín af matartímanum núna til að pikka kvartanir mínar hér inn og fer svo fyrr heim í dag í restinni af matartímanum. Þ.e. ef það verða ekki allri stokknir burtu þá.

Lofað afkvæmi 1 að fara með henni í búðir eftir vinnu en lýst ekkert sérlega vel á veðrið til þess. Ætli ég verði samt ekki að láta mig hafa það hún þarf bráðnauðsynlega að kaupa sér buxur fyrir morgundaginn. Er annars tilefni til að fara í sund á svona dögum. Eða bara fara heim og leggja sig. Svaf illa í nótt, tengist lestrinum beint og óbeint. Fór að lesa þegar ég kom heim og las til kl. 2 í nótt. Reyfara um geðvilling sem skreið inn um glugga hjá einstæðum konum og myrti þær á hinn hroðalegasta hátt. Og þó ég væri ekki ein í húsinu var ég mikið að velta því fyrir mér að fara niður og loka þvottahússglugganum. Rifjaði upp á ég hafði lokað þvottahússdyrunum kyrfilega þegar ég fór út á snúru eftir kvöldmat en glugginn var opin og ef maður er handleggjalangur og handleggjagrannur er möguleiki á að teygja sig í hurðina og opna. Að ég tali nú ekki um að skrúfa úr gluggajárnið og labba inn. Eða þannig. En það mælti allt á móti svona gönguferð í kjallarann í nótt, aðallega þó myrkrið þar. Það er ekki hægt að kveikja fyrr en maður er kominn niður svo ég tékkaði á útidyrunum tók ryksuguna sem stóð umkomulaus á gólfinu eftir þrifin hjá afkvæminu og skellti henni fyrir hurðina niður í kjallara. Hugsaði sem svo að það yrði allavega ekki opnað án þess að ég heyrði. Og það hefði verið hæpið að nokkur hreyfði sig í íbúðinni hvað þá í íbúðinni á efri hæðinni án þess að ég heyrði. Meira að segja komst ég að þvi að kötturinn minn hrýtur. Sko hann malar ekki á nóttinni hann hrýtur, voða lágt að vísu en ég heyrði það annað slagið í alla nótt. Er ekki vissu um að hann sé góður varðköttur en meðan hann heldur mér hálfvakandi alla nóttina hlýt ég að geta séð um varðgæsluna.
Það mælir allt á móti því að lesa spennusögur framm efti nóttu, spennan situr í manni fram undir morgun og þess vegna er sennilega besti tíminn til að lesa spennusögur á morgnana, nota spennuflippið svo yfir daginn í eitthvað uppbyggilegt.
Jæja 10 mín búnar

Engin ummæli: