Ég rankaði við mér og mundi að endur fyrir löngu, nei kannski ekki svo löngu, átti ég blogg og á því voru tenglar á ýmsar gagnlegar vefsíður. Meðal annars þýska útvarpsstöð sem mig langaði allt í einu til að hlusta á, ekki veit ég af hverju en vegir hugans eru órannsakanlegir.
Ég hef verið upptekin af flestu öðru í sumar en að hlusta á útvarp, hvað þá þýska dagskrá, hana hef ég ekki hlustað á síðan ég var að læra þýsku í Keili hérna um árið. Garðyrkja, húsamálun, göngur, æðardúnn, skálavarsla, allt þetta hefur átt hug minn í sumar og nú er sumarið farið að styttast ansi mikið í seinni endann. Skólinn fer að skella á og ég velti því fyrir mér hvort ég eigi að skrá mig úr námskeiði um rómantíkina á Íslandi og í námskeið um ævintýrin í nútímanum. Ég get ekki ákveðið mig.
Þetta sumarið byrjaði skólatilhlökkunin ekki í júní, hún fór ekki að bæra á sér fyrr en í ágúst. Kannski verð ég búin að fá nóg í vetrarlok þegar BA námið verður búið hjá mér og sleppi því að sækja um í framhaldsnámi. Den tid, den sorg eins og danskurinn segir, nú ætla ég að athuga hvort þýskan örvar ekki vinnuandann og dregur úr gigtarverkjum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli