5. september 2013

Gegnum þagnarmúrinn

Þessi fyrirsögn er alveg merkingarlaus og ekki í neinu samræmi við það sem á eftir kemur, mér fannst hún bara flott og nú á ég eitthvað sameiginlegt með svo mörgum fjölmiðlum sem stunda það að setja góðar fyrirsagnir á innihaldslítið efni.

Annars var ég að lesa blogg sem ég kíki á annað slagið og þar stærir höfundur sig af því sem hann gerði og gerði þó ekki þann daginn. Mestan partin var það að hann setti ekkert af þessum hversdagslegu hlutum sem hann sá og gerði inn á Facebook, mér fannst það til eftirbreytni og er steinhætt að taka myndir af góða verðrinu – nú eða því slæma eftir atvikum – og setja inn á Facebook, köttum börnum, fuglum blómum, berjatínslu og sveppum.  Ég býst nú reyndar við að það eigi eftir að breytast aftur til hins verra einhvern daginn.  En þar sem ég er nú farin að taka Eirík mér til fyrirmyndar ætla ég líka að telja upp allt það sem ég er búin að gera og sjá og hef ekki sett á netið fram til þessa.

Ég pakkaði saman vinnu og persónulegum munum og keyrið sem leið austan af landi og í Kópavoginn fyrsta dag septembermánaðar, daginn eftir mætti ég í skólann. Ég heilsaði börnunum mínum og köttunum en tók engar myndir af þeim; byrjaði á skipulögðum 20 mínútna gönguferðum á morgnana um leið og ég er búin að nudda stýrurnar úr augunum;  hékk á Landsbókasafninu í þrjá tíma í gær við að leita að greinum um goð og garpa, heiðna trú og miðaldabókmenntir; keypti þriggja binda verk um íslenskt mál á pdf formi hjá Forlaginu – vatnsmerkið á skjalinu pirrar mig þegar ég reyni að lesa það í tölvunni. Ég elda mat og brenni mat en er ekki farin að baka, borða krækiber og hangi í tölvu. Í dag keypti ég mér strætókort og líkamsræktarkort og velti því fyrir mér að kaupa mér líka enskunámskeið.

Allt þetta og meira til er ég búin að gera það sem af er þessum mánuði og þegar maður hefur ekkert að segja af viti er ágætt að telja upp þessa hversdagslegu smámuni sem litlu skipta en gera þó lífið að þvi sem það er.

Og nú þegar þetta er búið get ég farið að snúa mér að vinnunni og því að upphugsa aðra gáfulega fyrirsögn.
Heimagangurinn minn

Engin ummæli: