8. júlí 2013

Berfætt á tánum

Mig dreymdi í nótt að ég væri stödd í stórri flugstöð á leið í flug – til útlanda. Þegar ég hitti bestu vinkonu mína á svæðinu, á leið í annað flug á annan áfangastað, uppgötvaði ég mér til skelfingar að ég var berfætt og úlpulaus og ég hafði ekki hugmynd um hverju ég hafði pakkað niður í töskurnar, sem voru komnar út í vél.  Ég huggaði mig við að ég var með kreditkort og hafði nægan tíma til að versla í öllum þeim ótal búðum sem voru á svæðinu og rauk af stað til að kaupa mér úlpu, skó og sokka. Það gekk eitthvað brösulega að rata um og óvænt kom kerlingarálka upp að mér og reif af mér ungbarnagalla sem ég hélt á. Hún sagði að það væri blettur í honum og ætti ekki að selja hann, ég var ekki sátt en tókst ekki að gera neitt í málinu.
Mér sýnist þetta vera pen ábending um að ég sé ekki tilbúin í gönguferð úr Múlaskála í Egilssel eða að við vinkonurnar eigum ekki, í einhverjum skilningi, samleið í rölti okkar í lífinu – nema hvorutveggja sé.
Hvort heldur er ætla ég að drífa mig í litla fjallgöngu í kvöld hvað sem öllu kvefi líður.

 ------------------------
Ég er með bloggsamviskubit - kannski ég hafi mjakað mér yfir ritstífluþröskuldinn í dag.


1 ummæli:

ellan sagði...

hmmm.... ég er ekki samála.

Ég held að við komum til með að hafa það gott saman í Múlaskál.

Hjólaferðin okkar er bara farin að fara á sálina þína.....

Og kannski finnst þér þú ekki tilbúin að sleppa takinu af vinnunni á tilsettum tíma....