23. nóvember 2012

Tölfræði

Systkini mín heitir ljóð eftir Gerði Kristnýju og þrátt fyrir öll boð og bönn um birtingu án leyfis höfundar ætla ég að lauma því hér inn.

Systkini mín

Man ekki eftir
mér án þeirra

varð ekki almennilega til 
fyrr en þau fæddust
með skilaboð frá almættinu
greypt í iljarnar

Hef ekki getað lesið þau 
fyrr en nú

ástæðan er líklega sú að
ég gekk alltaf á undan þeim
og sá því aldrei sporin

Fer fram á að fá að
halda forskotinu 
út yfir gröf og dauða

svo ég muni aldrei eftir mér
án þeirra

(Launkofi, 200)

Ég heyrði þetta ljóð nýlega lesið upp og það kom upp í hugann í gær þegar ég taldi systkini systkina minna. Systur öllu heldur. 
Þrír bræðra minna eiga þrjár systur, einn á tvær systur og einn þeirra á bara eina. Ef ég hef talið rétt. Einn bróðir minn á systur sem er ekki systir mín en hann er líka sá eini þeirra sem á tvær systur sem hafa fengið krabbamein. Þar af önnur tvisvar – já og einn bróðir hans hefur líka fengið krabbamein,  þessi sem á bara eina systur.
Ég fékk fréttir um það í gær að ein þessara systra, rúmlega fertug móðir tveggja ungra barna hefi greinst aftur og ég var slegin, er það enn.
Þessi frétt sló mig út af laginu á tvennan hátt. Í fyrsta lagi ónot og vanlíðan vegna hennar sem veiktist, barnanna, eiginmannsins og fjölskyldunnar allrar og í öðru lagi vegna þess að þær minna mig óþyrmilega á að vegur krabbameinsins er óútreiknanlegur. Ef hún greinist eftir fimm ár, hvað hef ég þá langan frest?

Svo bælir maður niður svona hugsanir og heldur sínu striki. Sú tíði er samt liðin að ég geti áreynslulaust hrint frá mér hugsunum um þennan sjúkdóm.  
Þau eru ótal mörg kaflaskiptin í lífinu, atburðir sem marka lífið sem og áður, þau eru bara misjafnlega sterk, rétt eins og lægðaskilin yfir landinu. 

Svo má ég stela aðeins meiru frá Gerði

Skelfingin 
skorðaðist 
í kviði mínum

þandist út
og þyngdist

Bjarg sem 
breiddi úr sér.

(Blóðhófnir, 2010. brot)


Ef einhverjum finnst þetta ruglingsleg upptaling er það bara vegna þess að þetta eru ruglingsleg fjölskyldubönd. Ég hefði auðveldlega getað flækt þetta enn meira án þess að ljúga nokkru. 

Engin ummæli: