Knúsum íslenskt mál dagurinn var í gær, af því tilefni ætla ég
ekki að nota ó í staðinn fyrir æ í bloggi og stöðuuppfærslum heldur slá með litlafingri
á fjandans æ takkan þar til stafurinn birtist á skjánum. Ég var annars búin að
ákveða að nota ó í stað æ þar til ég hefði tíma til að fara og heimta nýtt
lyklaborð í búðinni þar sem ég keypti núverandi innsláttartæki. Ég er búin að
prófa og það skilja allri við hvað er átt þegar ég segist vera nemandi í
íslenskum fróðum við HÍ svo þessi aðferð gæti gengið upp. Flestir halda bara að
ég hafi smitast af einhverri forneskju og sé hætt að nota samræmda íslenska
nútíma stafsetningu. Fæstir vita þó að samræmd stafsetning eða rittákn voru
ekki til í denn (ó, engar slettur í málknús pistli!).
En hvað um það, í
gær var ég í Árnagarði og fylgdist með hátíðardagskrá sem sett var saman í
tilefni dags íslenskrar tungu (sem er ekki sérnafn og því ekki með stórum staf)
og Mímir, félag stúdenta í íslenskum fræðum og Árnastofnun stóðu fyrir.
Mínar heimildir herma þó að þeir tveir nemendur sem höfðu veg og vanda að
undirbúningnum séu hvorugir í Mími. En það er áberandi hvað vísinda- og
bjórdrykkjuferðir og hátíðir Mímis höfða lítið til eldri og ráðsettari
nemenda. Það er kannski best að taka það fram að þessar tvær sem sáu um
dagskrána eru hvorug á eftirlaunaaldri, báðar innan við þrítugt.
Þarna voru
fyrirlestrar um ýmislegt sem varðar íslenskt mál, ljóða og skáldsagna upplestur
og í lokin söng Svavar Knútur fáein lög fyrir þá sem entust til að sitja í
nærri þrjá tíma. Sitja segi ég, auðvitað fengum við kaffihlé (í matartímanum)
og veitingarnar voru svo ríflegar að það hefði dugað tvöfallt fleira fólki.
Þarna talaði
Eiríkur Rögnvalds um stafrænan dauða íslenskunnar. Ég hef verið í tímum hjá
Eiríki í haust og þar hefur hann dregið upp svo dökka mynd af þessum
yfirvofandi ragnarökum að ég skipti um tungumál í Office pakkanum um daginn
(vantar þjált ísl. orð yfir hann.) og nota nú orð eins og sniðpensill, líma,
heim, setja inn, útlit síðu, tilvísanir, sendingar og yfirlestur. Ótrúlegt en
satt gengur þetta vandræðalaust fyrir sig og þegar ég þarf að leita í hjálpina,
sem er á ensku, skipti ég bara um tungumál aftur til að auðvelda mér að rata um
forritið eftir enskum leiðbeiningum.
Málsgrein er það sama og paragraph, getur það vafist fyrir nokkrum
manni?
Ég held að eitt helsta þjóðareinkenni Íslendinga sé enskusnobb.
Ég held að eitt helsta þjóðareinkenni Íslendinga sé enskusnobb.
Getur það verið að flestir sjái íslensku fræðinga fyrir sér sem
afturhalds sama harðlínu menn í forskriftarmálfræði? Ég held að á einhvern
óljósan hátt hafi ég gert mér hugmyndir um það. Það hefur breyst undanfarið og nú
held ég að fæstir málfræðingar tilheyri hópi þeirra sem hrópa upp yfir sig af hneykslun
þegar eitthvað sjálfsprottið nýyrðið eða töku orð ryðst inn í málið.
Hneykslisraddirnar urðu háværar í fyrra þegar auglýsingarnar um að
appa bensín hjá N1 fóru að heyrast. Enska og ógegnsætt var það sem flestir
kvörtuðu yfir. App er jú er enskt tökuorð
og N1 auglýsti appaðu það. Að appa eitthvað er að mínu mati kolómöguleg sögn,
það er ekki hægt að mynda sagnorð af öllum nafnorðum og app er eitt af
þeim. Annað er svo sem ekki hægt að
setja út á appið, ef við bætum h framan við erum við komin með happ, orð sem
hefur verið þekkt lengur í málinu en elstu menn muna. Samt mæli ég ekki með að
DAS auglýsi, Happaðu þér vinning.
Það komu inn ríflega 50 tillögur að íslensku orði í staðin fyrir
appið, misgóðar, sumar verulega slæmar Ágústa Þorbergsdóttir – verkefnisstjóri
á málræktarsviði Árnastofnunar fór yfir þær í gær. Forrit, smáforrit,
viðbót og stefja eru þau fáu sem ég man en eins og hún sagði, tillögur
málræktarsviðs að nýyrði fyrir appið komu hálfu ári of seint og reyndar var app
eitt af þeim orðum sem málræktarsvið lagði til að yrði notað yfir fyrirbærið.
Mér finnst orðið stefja fallegt og vildi gjarnan nota það á eitthvað annað en appið. Ætli það gæti gengið á æpodinn minn?
Mér finnst orðið stefja fallegt og vildi gjarnan nota það á eitthvað annað en appið. Ætli það gæti gengið á æpodinn minn?
Spjaldtölvur á tilboði til skóla, ókeypis námsefni fylgir s.s.
stærðfræði verkefni fyrir 5-7 ára nemendur. Þetta námsefni og annað sem býðst
er miðað við breska námsskrá. Jafnvel þó ég skrúfi niður í málvöndunarsinnanum
í sjálfri mér kemst ég ekki hjá þeirri hugsun að þetta sé ekki boðlegt. Eða er þetta bara allt í lagi? Ég get
ómögulega farið að rökræða við sjálfa mig um það hér og nú, ég hef ekki tíma
til að draga fram rökin með og á móti og í augnablikinu er rökfærslu- og heimilda
heilaþvotturinn mjög sterkur. Ég þori varla að segja nafnið mitt án þess að
rökstyðja það og við kennitöluna mína set ég alltaf vísun í þjóðskrá.
Eitt var það sem kom fram í gær sem ég er verulega hugsi yfir og
sú ábending kom ekki frá íslenskufræðingi heldur frá
tónlistarmanninum, heimspekingnum og kerfisfræðingnum Svavari Knúti. Hann spurði
hvers vegna við ættum að láta þá sem hafa minnst vald á málinu ráða því hvernig
það þróast. Eigum við þá ekki að láta þá
sem hafa minnsta kunnáttu og þekkingu á hverju sviði sjá um þróunina, s.s. í
tölvutækni?
Þessi texti er skrifaður í Word (sem ég kann ekki við að þýða
orðrétt, ekki enn)
og yfirfarinn í þeim hluta forritsins sem heitir á íslensku,
stafsetning og málfræði. Þar sem forritið ræður enn ekki við íslenska málfræði
eru allar málfræði og greinarmerkjavillur eins og þær koma fyrir af kúnni.
Skrifast sem sagt á mína fákunnáttu og fljótfærni (og ég sá nafnorð í röngu kyni
þarna við fyrsta yfirlestur en finn það ekki aftur.)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli