12. nóvember 2012

Einu sinni sem oftar . . .



. . . velti ég því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég sagði krabbameinslækninum mínu ekki upp störfum strax eftir okkar fyrsta fund og réði mér annan. Auðvitað veit ég svarið, a.m.k. hluta af því. Ég er einfaldlega meðvirk og hugsaði meira um hvernig það kæmi við aðra að vera með þau leiðindi. Hitt er annað mál að ef ég hefði skipt um lækni á sínum tíma hefði ég misst af hjúkkunni minni og hana þarf ég að fara og knúza í hvert skipti sem ég fer niður á ellefuna og ekki vil ég missa af því. 

Ég fór í eftirlit áðan, það er að segja tók fyrsta skrefið í því, og komst að því að ég vissi ekkert um það hvað eftirlit fæli í sér, mér var aldrei sagt það í sumar þegar ég mætti í síðustu lyfjagjöf. Það var nú kannski ekki nema von því blessuð konan átti víst ekki von á mér og gaf sér lítinn tíma til að tala við mig. Kannski þarf heldur ekki að fræða fólk um eftirfylgni og hvað eftirlitið felur í sér maður á bara að finna það á sér. En nú er ég nokkru fróðari. 

Með reglulegu millibili á ég að fara í viðtal og þukl hjá krabbameinslækninum, svo í ómskoðun hjá Krabbameinsfélaginu, í þetta skiptið fer ég líka í hjartaómskoðun. Ég fékk ekki að vita hvort það verður hluti af eftirlitinu í framtíðinni, ég gleymdi að spyrja. 

Blóðprufur eru ekki teknar, því á alþjóðavísu, eins og hún orðaði það, er sýnt að þær skila ekki árangri. Ástandið er yfirleitt orðið það slæmt þegar sjúkdómurinn kemur fram í blóði að það á að vera búið að greina meinið með öðrum aðferðum áður.  Þarna var sem sagt minn misskilningur leiðréttur og því miður var ég svo upptekin af að hugsa um blóðprufur að ég tók ekki eftir því hvað hún sagði um framhaldseftirlit, þ.e. hvað maður kemur þétt til að byrja með og hvenær er dregið úr því. 

Her2 krabbamein er gjarnt á að taka sig upp aftur og dreifa sér (ég klikkað á að spyrja um tölfræðina en á svo sem ekki von á að mér hefði verið svarað nema út í hött) og það svæði sem þarf helst að hafa varann á er brjóstasvæðið og eitlarnir og því ætti að vera hægt að fylgjast með í ómskoðun. (Of löng setning, en só!) Aðrir staðir koma svo sem líka til greina en . . . 

 Þá er bara að halda sínu striki eins og ekkert hafi í skorist, bíða eftir innköllun í kalkkirtlatöku, að full tilfinning komi aftur í fingurgóma, að neglurnar hætti að brotna, rifna og molna, vona að hjartanu hafi ekki orðið meint af lyfjunum og að minnið eigi eftir að lagast smátt og smátt. Ég á nú samt ekki von á að það verði betra en það var fyrir krabbamein.  

Það er rigning og rok, annar kötturinn hreiðraði um sig á púða á gólfinu, ég væri til í að hreiðra um mig hjá honum með skáldsögu – ég ætla að láta kaupa fyrir mig Kindle í USA (ég er að hugsa um að nota orðið Leskyndill frekar, hmm, eitt orð eða tvö? les-kyndill?) og liggja í skáldsagnalestri eftir 13. des.  

U í barnu (fornt mál) olli u hljóðvarpi (u í endingu olli því að a breyttist í ö í stofni) svo úr urðu  börn í ft., u er löngu fallið niður í orðinu en ö heldur sér. Það er margt skrýtið í kýrhausnum! Já og meðan jörðin var ung, svona 50 til 100 milljónum ára eftir að hún  varð til rakst  hnöttur á stærð við Mars á hana og eins og svo oft leiddu skyndikynni til fjölgunar og tunglið varð til.  
Lífsnautna skepna heimilisins. 
Púðar sem detta í gólfið eru í miklu uppáhaldi
 en það eru líka teppi sem er kastað upp á sófabök. 

3 ummæli:

ellan sagði...

frumskógur læknisfræðinnar er skuggum dreifður.....
einhvern tíma setja þeir það á skorkortið og innleiða betri vinnubrögð eða notendavænna umhverfi.

þangað til.... berjast þeir víst bara fyrir stærra húsnæði, úrlausnum í samfélaginu og þátttöku sjúklinga í meðferðinni.

Ragnhildur sagði...

Var það þá eitt barnu mörg börn eða mörg börnu?

Hafrún sagði...

Þetta voru voða mörg barnu sem urðu að sífellt færri börnum ;)