7. ágúst 2012

Þú ert biluð

Dagurinn styttist óðfluga í annan endann og ágústmyrkrið er orðið raunverulegt, er ekki lengur minning um ljóð eftir Eyþór Árnason.
Þegar ég keyrði heim í kvöld spegluðu kvöldsólargeislarnir sig í vesturskýjunum sem aftur spegluðu sig i firðinum. Fjörðurinn speglaði sig ekki í neinu, hann lét sér nægja að spegla fjöllin og kvöldroðann um leið og hann bauð upp á sundferð í sléttum haffletinum. Ég þáði ekki boðið, ekki í kvöld, mér líkar ekki sjósvaml á fjörunni ég vil bíða eftir flóði. Munurinn á flóði og fjöru er nefnilega sá að á fjörunni þarf að vaða alveg út í stórþarann til að komast á sunddýpi en á flóði er hægt að svamla um yfir  möl og meinlausum blöðruþara.
Ég ólst upp við sjóinn og í sjónum og fjörunni. Séttan (staðbundið og þýðir lítill árabátur) var farartæki sem var mikið notað og á góðum sumardögum í sjaldgæfu logni fengum við að dóla á henni skammt undan landi og veiða lúrur á færi. Þá var ljúft að hanga með hausinn út fyrir borðstokkinn og grandskoða sjávarlífið, það var ævintýralegt útsýni yfir sléttum sandbotninum og þar bjuggu ígulker, krossfiskar, krabbar, lúrur, kuðungar og rauðsprettur. En áður en maður komst svo langt þurfti að fara yfir stórþarann sem bylgjast hár og þéttur utan við gróðurbelti blöðruþara, beltisþara og fjörusalats. Stórþarinn sem vex á löngum stilkum niðri á hafsbotni hefur þetta hrollvekjandi útlit þess sem gæti geymt óhugnaleg leyndarmál undir löngum bylgjandi blöðunum og það var langt í frá heillandi að horfa niður í hafið þegar við fórum þar yfir. Þess vegna vil ég ekki synda á fjörunni og alls ekki stórstraumsfjöru, bara flóði.
Vinkona mín fékk einu sinni þá flugu í höfuðið að stunda sjósund og nú er henni ekki við bjargandi, hún þarf helst að fara þrisvar í viku, kvölds og morgna og um miðjan dag, meira að segja í miðnætursund. Ég hef reglulega sagt henni að hún sé biluð. Ég meina- engin óvitlaus manneskja fer að æða út í sjö gráðu heitt (kalt) vatn eða sjó að gamni sínu. Samt fór ég að velta því fyrir mér eftir áfallið sem ég varð fyrir á kajakanámskeiðinu sem ég var á í vetur, hvort ég þyrfti ekki bara að fá regluleg kuldasjokk svo ég gæti eftil vill, kannski og bara mögulega, farið á kajak án þess að fá hjartaáfall bara við tilhugsunina um að lenda á hvolf í sjóinn. Svo velti ég því líka fyrir mér hvot köld böð og þá alveg eins sjóböð gætu gert blóðrásinni og þá sogæðakerfinu eitthvað gagn. Ég er afspyrnu leið stundum (oftast) á bjúgmyndunni og mjúkvefjaþrotanum sem hrjáir mig alla daga. 
Nú er ég orðin alveg biluð og göslast út í sjó reglulega án þess að vera komin á það stig að synda mikið, nokkur sundtök við vörina er allt of sumt sem ég er komin upp í en þetta er svona frekar skemmtileg bilun og eg held ég haldi henni áfram eitthvað lengur. 



Engin ummæli: