2. maí 2012

Flugstöðvaheimspeki

Bið á flugstöðum kallar á heimspekilegar hugleiðingar. Ekki veit ég af hverju en kalla þetta svona Lestin mikla heilkenni.
Árla morguns sitjandi yfir tómum kaffibolla í Leifstöð hugsa ég um syfjaða konu sem keyrir bílinn minn aftur í bæinn. Ég vakti hana á ókristilegum tíma og það veldur mér samviskubiti og ég leita að réttlætingu. Hún fær bílinn minn i viku, ég myndi örugglega skutla henni á völlinn ef hún þyrfti á því að halda. Nei annars, ég hef grun um að ég segði henni bara að taka rútuna. Ekki þó eftir þetta nú á hún inni hjá mér eina snemmbúna ferð út í Keflavík.
Ég er mætt í flugstöðina og í fyrsta skipti á ævinni er ég bara í fylgd með sjálfri mér. Mér fannst það hálf undarleg tilhugsun þegar ég áttaði mig á því. Ég er ekki sérstaklega ferðavön, byrjaði seint að ferðast, fór ekki út fyrir landsteinana fyrr en um fertugt, ef Vestmanneyjar eru frátaldar, síðan þá hef ég farið reglulega hingað og þangað, bæði í stuttar ferðir og langar. Alltaf hef ég þó verið að elta einhvern, eða einver elt mig, haft félagsskap  í þessum miður skemmtilega aðdraganda flugferðanna, biðinni á flugstövum og biðinni eftir farangri.
Nú er það bara ég og bókin, minnisblokkin og penninn og ég hef óljósar áhyggjur af mínu illræmda minnisleysi og viðutanhætt.
Hvað gleymdist heima og verður sálin svo langt utan seilingar þegar ég þarf að þræða mig gegnum ókunna flugstöð í útlandinu að ég geng í hringi og tek ekki eftir Exit og Train skiltunum á áfangastað.

Minn morgunmtur samanstóð af Crossant og kaffi en forverar
mínir við þetta borð fóru ábyggilega glaðir og reifir í sitt flug.
               LESTIN MIKLA

                    Engum er ljóst, hvaðan lagt var af stað
                    né hver lestinni miklu ræður.
                    Við sláumst í förina fyrir það,
                    jafnt fúsir sem nauðugir, bræður.

                    Og hægt hún fer, en hún færist um set,
                    þessi fylgd yfir veginn auðan,
                    kynslóð af kynslóð og fet fyrir fet.
                    Og ferðinni er heitið í dauðann.
Tómas Guðmundsson 

Engin ummæli: