Mér hættir til –af ýmsum ástæðum– að hjakka lengi í sama farinu. Oft svo lengi að mér verður nóg boðið og dríf mig upp úr því. Það má segja að ég finni minn botn annað slagið. Eftir að vera búin að hjakka í tæpar tvær vikur í sama farinu, illa haldin af fullkomnunaráráttu fann ég verkefnabotninn minn. Ég henti einhverju bulli á blað, las yfir, henti meira bulli á blað, ákvað að láta það duga og ætla að skila því á morgun. Hugsaði nú samt, voðaleg klisja er þetta hjá mér, þetta er ekki það sem mig langar til að segja. Vonandi er þetta samt eitthvað sem kennarinn vill sá á blaði. Allt snýst þetta jú um að segja það sem þeir vilja heyra blessaðir.
Ég átti í vikunni gott samtal við unga konu sem er búin að skila tveimur BA ritgerðum í HÍ, þeirri fyrri henti hún saman með ungæðislegu kæruleysi, sú seinni (nokkrum árum seinna) kostaði mikil heilabrot, yfirlegu og áhyggjur. Munurinn á einkununum fyrir þessar tvær ritgerðir var ekki i samræmi við muninn á vinnunni við þær.
Má draga af þessu einhverjar ályktanir? Já ég er ekki frá því.
Ég fékk mér göngutúr í gær, ætlaði að rölta kringum Vífilstaðavatnið, það tekur hálftíma, en endaði inn í Búrfellsgjá. Mér líkar ekki alltaf að ganga í fjölmenni og í gær hefði verið eins gott að rölta Laugaveginn eins og meðfram Vífilstaðavatninu.
Hálftíma gangan endaði í tveimur tímum og ég var eiginlega í keng af verkjum hér og þar þegar ég kom að bílnum aftur. Gönguskórnir mínir eru óþarflega stífir og þungir og framvegis eins og hingað til ræni ég gönguskóm Flubbans. Það er sveigjanlegri sóli á þeim.
 |
Þessi spjölluðu saman á gjábakkanum |
|
Af Búrfellinu sá ég öll fellin, fjöllin, hæðirnar, hólana og fjörurnar sem mig langar til að skoða á tveimur jafn fljótum næstu mánuði. Ég hef nóg að stefna að í vetur.
 |
Úr Búrfellsgjánni er örstutt yfir á Helgafell, ég held bara að ég rölti þarna yfir einhvern daginn | |
|
|
|
|
 |
Þegar sólin glennti sig milli skýjanna virtist þetta svo örstutt að ég ákvað að fara alla leið upp að gígnum. Það var stutt en leiðin til baka var af einvherjum ástæðum lengri. |
 |
Grindaskörðin bíða líka eftir mér en það er nú meira en tveggja tíma rölt. |
 |
Dyngjurnar og Keilir |
 |
Það var enginn roði í austri í þetta skiptið. |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli