2. september 2011

Hressist

Ég er enn að braggast og það ánægjulegasta þessa dagana er að á mánudagin, þegar liðnar eru þrjár vikur frá síðustu lyfjagjöf, þarf ég ekki að fara aftur. Hringurinn er rofinn og nú er það vonandi bara línulegt áframhald með stígandi kúrfu.

Svo fylgist ég með hitastiginu í Uzbekistan með kvíðahnút í maganum. Þar fer hitastigið hækkandi aftur og Accuweather spáir allt að 40°C næstu daga. yr.no er þó hógværari og nokkrum gráðum lægri. Mér hefur sýnst norska spáin nokkuð traust og ætla að trúa því að hún sér rétt fyrir Mið-Asíu.
Ég hef svo sem ekki áhyggjur af sjálfri mér þó volgni aðeins þarna en ég er búin að telja mömmu á að koma með og hún er lítið hrifin af hitastigi yfir 20°C

Annars ætlaði ég að skrifa OMG blogg um gullkorn dagsins í Fréttatímanum en ég má bara ekki vera að því. Samt klæjar mig í fingurnar og heilann að fara í létta greiningu á hugmyndunum bak við setninguna,  „Hún var í svörtum leðurbuxum þannig að óttinn hvarf og ég vissi að hér væri komin kona sem gaman væri að tala við.“ Svo eru menn að gera grín að Hildi Líf í héraðsdómi. 

Engin ummæli: