27. ágúst 2011

Óviðráðanleg göngugleði

Ég vaknaði við fyrsta mávagarg í morgun og ákvað að þessi morgun væri rétti morguninn til að fara út í smá göngutúr. Til að forðast frestunargrírinn skellti ég mér í viðeigandi búnað og ákvað að láta allt annað sitja á hakanum þ.m.t. morgunmat og kaffi. Svo fór ég og labbaði allan hringinn minn, þó ég legði af stað með það í huga að fara bara rétt aðeins niður á göngustíginn og aftur til baka. 

Sólin skein, æðarfuglinn stakk sér með gusugangi, sílamávurinn hlakkaði yfir einhverju og bærinn var kyrrlátur í morgunbirtunni. Klukkan var rúmlega sjö og á svona morgnum sækja á mann heimspekilegar hugsanir og vangaveltur. Ég fór ekki varhluta af því og var mjög svo niður sokkinn í hugsanir mínar alla leið heim að bæjardyrum. Þar greip ég í hurðarhún og ýtti hraustlega á til að opna. Ekkert gerðist. Samt átti að vera ólæst það var ég viss um, ég tók sjáfl úr lás um leið og ég fór út. Ég reyndi aftur. Og fullvissaði mig um að læsingin á útidyrunum er í góðu lagi. Góð ráð dýr? Heldur betur! 

Það þýðir þó ekkert að deyja ráðalaus og nú er ég búin að fullvissa mig um að það er ekki hægt að starta bílnum mínum með skrúfjárni. Já, ég veit, kæruleysi að hafa hann ólæstan en það er eina leiðin til að þagga niður í bilaðri þjófavörn og svo virðast fáir ágirnast gripinn. –Einu sinni átti ég ryðgaða Lödu sem hvorki var hægt að læsa eða taka lykilinn úr en bílaþjófar tóku á sig stóran krók framhjá henni.– 

Kæruleysi kemur mann svo sem stundum til bjargar og í bílnum mínum fann ég lykla. Ekki húslyklana, það var ekki svo gott, heldur lyklana að einum gamla vinnustaðnum. Ég var víst að búa mig undir að skila þeim en þeir voru ekki komnir lengra. Vinnustaðurinn er í göngufæri svo það var ekki annað sen setja lyklana í vasann og lötra af stað til að komast í síma. 

Allar heimspekilegar sem óheimspekilegar hugsanir voru nú roknar út í veður og vind. Já, það var svo líltið af hugsunum eftir að ég var meira en hálfnuð á ákvörðunarstað þegar ég áttaði mig á að sundlaugin væri opin á þessum tíma sólahrings. Bakaríið líka. Það hefði verið töluvert styttra að rölta þangað. Nokkrum metrum seinna hugsaði ég með mér, já og ég á líka hjól ég man meira að segja númerið á lásnum! 

Of seint, ég var að verða komin á leiðarenda svo ég kláraði gönguna, hringdi eftir lykli og settist niður til að bíða. Hálftíma bið á fastandi maga getur verið löng bið.

Þetta var engin svakalegur göngutúr, samt er ég lurkum lamin og framvegis tek ég með mér símann og lykil þegar ég fer út úr húsi. Líka þó ég taki úr lás og ætli bara út á horn.  

Engin ummæli: