18. maí 2011

Skólalok

Skólinn er búinn og ég vanda mig við að venjast því. –Mér ættir við að stuðla og ofstuðla, það vill verða tilgerðarlegt– Þetta er eiginlega búin að vera all svakaleg keyrsla núna frá 9. til 17. maí og ég hef ákveðnar efasemdir um gagnsemi þess að keyra heilan áfanga í gegn á 7 dögum.  Ég er að minnsta kosti komin með þýsku óþol en ég vona að það gangi yfir. Svo finnst mér ég ekki kunna nema kannski helminginn af því sem ég ætti og vildi kunna eftir þessa áfanga. Kannski dreg ég upp bækurnar aftur þegar óþolið fer að minnka. 
Duusbryggja

Til að halda upp á daginn skráði ég mig í íslenskunám í HÍ. Þá er það búið og gert og ég get snúið mér að því að hreinsa til í vinnumálum sem ég lofaði upp í peysuermina mína. Veik eða ekki veik, ómissandi eða ekki ómissandi, það er spurningin. Ég er allavega með hjartað á réttum stað og í góðu lagi, það var staðfest í hjartaómskoðun í dag. 
Ég dróg af því þá ályktun að ég væri hjartgóð manneskja en ekki lengur brjóstgóð. 

Annars dróg ég fram marglesna og þvælda ljóðabók úr bókahillunni áðan. Það er gott að rifja upp gömul kynni. 

Einhvern dag

  Ég vissi fullvel
að ég ætti einhvern dag
  leið um þennan veg;
en aldrei datt mér í hug
að „einhvern dag“ yrði nú. 

(úr Japönsk ljóð frá liðnum öldum í þýðingu Helga Hálfdánarsonar )

2 ummæli:

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Frábært að þú skulir ætla í íslensku! (En varúð: Fyrsta árið er leiðinlegast!)

Það er miklu meira virði að vera hjartagóð en brjóstgóð :)

Gangi þér allt í haginn,

Harpa H.

Hafrún sagði...

Takk Harpa. Ég bý mig þá undir tveggja ára leiðindi því ég fer ekki nema í hálft nám í vetur. :)