Þessi fyrirsögn er auðvitað algjörlega merkingarlaus að öðru leyti en því að núna er laugardagskvöld og að einu sinni kom út saga sem þetta gæti verið vísun í. Þeirri vísun er þó ekki til að dreifa, til þess þyrfti alvöru pælingu og háalvarlegan pistil í framhaldi af því.
Ég hef liðið fyrir það undanfarið hvað andlega hliðin verður fljótt flöt þegar krabbameinslyfjaaukaverkanir eru annars vegar. Stanslaus flökurleiki, máttleysi og sljóleiki eru fylgifiskar sem ég verð að þola og ætti sjálfsagt að sætta mig við og taka með æðruleysi og þolinmæði. Ég geri það samt ekki. Þolinmæði, jú, mér þýðir ekkert annað en ég leyfi mér að pirra mig á því að verða svo andlega dofin að ég nenni ekki einu sinni að rífast yfir dægurmálunum. Það er sko háalvarlegt mál. Ég verð næstum því svo flöt ég nenni ekki að ergja mig á því að vera flöt.
Málin gerast varla alvarlegri en það að maður gleymi Júsovísjón eins og ég hélt að ég hefði gert á þessu blessaða laugardagskvöldi. Auðvitað, þegar ég fer að hugsa mig um er ekki fræðilegur möguleiki á að nokkur - þetta ætti auðvitað að skrifast með hástöfum NOKKUR- Íslendingur komist upp með að gleyma Júróvisjón! Það orð á nefnilega eftir að bergmála í öllu okkar nær- og fjærumhverfi þangað til blessuð keppnin er búin.
Mér er þó nokkur vorkun því þegar ég opnaði Feisbúkk í kvöld bentu ýmsar stöðuppfærslur til að undnakeppninni væri lokið. Ég hætti þó við að fagna ,,missinum" þegar ég áttaði mig á því að fólk hefði verið að horfa á upphitunarþættina hans Páls Óskars. Mikið vildi ég nú að annað tónlistarlíf fengi smá umfjöllun annað slagið. Kóramótið sem var á Selfossi um síðustu helgi fékk eina smá klausi í einum fjölmiðli. Ég er sannfærð um að daginn sem 600 karlmenn koma saman til að sparka bolta mæta allir fjölmiðlar lika. Samsöngur 600 kvenna er ekki fréttaefni.
Heilög vandlæting og hneykslun á fréttamati fjölmiðlanna eru til marks um að ég er að rétta úr kútnum eftir síðustu lyfjagjöf.
Annars er erfitt að skipuleggja lífið mánuð fram í timann, ég býst við að verða í lyfjagjöf 15. júní og þá á nýjum kokteil sem ég veit ekki hvernig fer í mig, þau lyf hafa sumpartinn aðrar aukavekanir en þeim fylgja örugglega ógleði og ég fæ stóran steraskammtur á undan þeim og það veit ég að ég oli illa. Það verður bara ekki undan vikist því í þeim kúr verða sterarnir notaðir til að koma í veg fyrir ofnæmisviðbrögð. Ég er farin að kvíða því strax, líðanin þessa viku er nefnilega búin að vera miklu skárri en fyrir þremur vikum og ég þakka það því að steragjöfin var minnkuð um helming. Hvernig ástandið verður 17. júní er þess vegna ekki gott að spá fyrir um.
Að skrifa beint á lyklaborð fartövu er ekki alltaf góð aðferð og það má ábyggilega sjá það á þessari færslu, bendillinn er búinn að hoppa út og suður, norður og niður án nokkurar sýnlegrar ástæðu og ég hef ekki haft undan að leiðrétta villurnar sem það hefur valdið. Ég er nú samt búin að afreka að skrifa einn pistil og það hvarflar ekki að mér að leiðrétta hann. frekar ALLAR vitleysurnar hér eru tæknilegs eðlis, ég gengst ekki við neinni þeirra sjálf.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli