Hún situr og bókar og svo er komið að því að upplýsa eitthvað af flottu „fídusunum“ í kerfinu og ég segi,
„Sláðu inn viðskiptanúmerið og ýttu svo á Ctrl og t“
„Af hverju?“
„Af því að ég segi það“ hún hummar en hlýðir og sér hvað Ctrl og t gera.
Eftir smá stund og nokkrar færslur segi ég,
„Nú skalltu ýta á F5 og velja prentun.“ Æpi svo „Slepptu helv. músinni!.“
„Fyrirgefðu“ segir hún.
Ég þekki engan sem segir eins oft fyrirgefðu. Ég hef alltaf fengið samviskubit þegar hún segir fyrirgefðu við nærri öllu sem ég segi. En ekki lengur. Ég heyrði hana nefnilega segja þetta nokkrum sinnum við sjálfa sig í dag og ég sko ekkert að segja. Var bara yfir í þvottahúsi að bauka.
„F7 og prenta" segi ég.
Hún hlýðir orðalaust aldrei þessu vant.
„F7 aftur og veldu „röðun“ í flipunum þarna uppi.“
„Af hverju?“
„Af því ég segi það.“
Hún hlýðir og nú fæ ég tækifæri til að útskýra hvernig hægt er að raða færslum upp á mismundi vegu í útprentun og hvers vegna það getur verið nauðsynlegt. Svo uppfærum við villulausa dagbókina hennar.
Næst er að sýna fleiri atriði í kerfinu og ég bendi og segi,
„Farðu í aðalvalmyndina og svo inn í þessa valmynd.“
Hún: „Af hverju?“
Ég: „Af því ég segi það.“
Hún hugsar sig vel um en hlýðir mér fyrir rest og sér þá hvernig næsta undirkerfi virkar.
Enn vinnum við –ég meina hún vinnur, ég klappa kettinum og hangi á facebook– og svo er kominn tími á næsta atriði sem þarf að læra og ég segi.
„Ýttu á F2.“
Hún: „Af hverju?“
Ég: „Af því ég segi það.“
Ég á því miður ekki hljóðritun af þessu samtali og þetta er því birt með fyrirvara og er bara úrdráttur.
Næst ætla ég að breyta til og svara „þú sérð það“ í staðin fyrir „af því ég segi það“, –ef ég man– en af því ég er búin að þekkja hana í rúm 30 ár á ég ekki von á öðru en hún haldi áfram að segja „af hverju“.
![]() |
Og svo er hér fiðluleikari kominn alla leið frá Róm. Hann spilaði samt ekki á fiðlu meðan borgin brann. |
Ég vona bara að hún haldi því áfram í a.m.k. önnur 30 ár það eru svo fáir sem ég hef tækifæri á að segja við „af því ég segi það“ (og svo vil ég heldur ekkert hafa hana öðru vísi en ekki segja henni það).
Hún trúði mér reyndar fyrir því í dag að í alvöru vinnunni sinni væri hún kölluð Frekjan. Þar segir hún nefnilega, hægri- vinstri-, „Gerðu svona“, „Komdu hingað“, „Farðu þangað“ og þar segir ekki nokkur maður „Af hverju“
Hún trúði mér reyndar fyrir því í dag að í alvöru vinnunni sinni væri hún kölluð Frekjan. Þar segir hún nefnilega, hægri- vinstri-, „Gerðu svona“, „Komdu hingað“, „Farðu þangað“ og þar segir ekki nokkur maður „Af hverju“
2 ummæli:
en afhverju má ég ekki vera í bleiku ?
Af því ég segi það.
Svo ef þú ferð í bleikt, vertu þá ekki að flagga því neitt framan í mig.
Skrifa ummæli