3. mars 2011

Ævintýri og dramatík

Þessa dagana hef ég oft hugsað til Sóma Gamban þar sem hann situr í einum vonlausasta, daprasta og myrkasta hluta ævintýrisins sem þeir félagarnir, hann og Fróði eru þáttkendur í.

Orðrétt man ég samtalið ekki en í því ræðir hann um ævintýrin sem lesin eru heima í Hobbitaholunum á kvöldin. Ævintýri sem kveikja þrá eftir einhverju ókunnu, framandi og spennandi.

Þegar þeir félagarnir hafa svo gefið sig ævintýrinu á vald, eða öllu heldur þegar ævintýrið  hefur hertekið þá hverfur ljóminn og spennan og nokkrir litlir Hobbitar horfast í augu við baráttu við ill öfl, óvægna baráttu sem engu eyrir. Þreyta, kuldi, hungur, blóðug barátta er ekki lengur á hluti spennandi sögu heldur raunveruleikinn.

Þannig er með ævintýrin, um leið og inn í þau er komið verða þau að hversdagslífi. Kannski ekki strax, en fljótlega. Spennandi ferðalög og dagar sem beðið hefur verið með mikilli eftirvæntingu reynast ekki vera  staðurinn undir enda regnbogans, aðeins endurskin hans. Tilhlökkunin hverfur og raunveruleikinn tekur við,   ferðalagið verður hversdaglegt, verður sjálfsagður hlutur. Vakna, borða, ferðast, skoða.

Um þetta hugsaði ég líka oft  á ferðalagi um framandi slóðir fyrir nokkrum árum. Ég var búin að telja niður í ferðina, bíða í ofvæni eftir að skoða lönd sem ég þurft að fletta upp á landakorti eftir að ég bókaði ferðina.

Það væru ýkjur að segja að ferðin mín  hafi verið hversdagsleg. Það komst bara fljótt upp í vana að  þvælast  milli staða, skoða forn mannvirki og ólíka menningu, ferðast dag eftir dag í rútu og vera áhorfandi. Ég sat og horfði út um  gluggann og velti fyrir mér þessari einkennilegu tilfinningu um hversdagsleg ævintýri. Það sem enn vakti hrifningu á þriðju viku ferðarinnar voru ekki menningarverðmætin, heldur hlutir sem voru  ofur venjulegir og óáhugaverðir  augum heimamanna. Blómstrandi ávaxtatré, eðlur skoppandi milli steina, landið og fólkið í daglegu amstri. Hluti töfranna ver enn til staða en kitlandi eftirvæntingin eftir nýrri upplifun ekki.  

Svo eru það dökku ævintýrin sem enginn veit fyrir víst hvernig enda, þau geta líka orði sjálfsagður hluti lífsins. Ég hitti um daginn mann sem sagði ofur hversdagslega, rétt eins og hann væri að tala um veðrið, „Þetta er því miður krabbamein“.  Það þarf góða æfingu í að segja slæmar fréttir og ná að gera það vel.

Gegnum árin hef ég lesið yfir dánartilkynningar, staldrað við orðin „lést á líknardeild" og hugsað um leið hvað margir námkomnir mér hafa fengið krabbamein og ekki lifað það af. Árlega greinast  á annað þúsund manns með krabbamein á Íslandi. Mig minnir ég hafa séð þá tölu að einn af hverjum fimm megi búast við að veikjasta af því einhverntíma á ævinni. (Ég hef minnisgloppufyrirvara á þessu) Afneitun felur í sér sjálfsbjargarviðleitni. Þess vegna hef ég alltaf hrist af mér hverja hugsun sem leitar of djúpt og ákveðið að þetta verði ekki mitt hlutskipti.

Þetta varð nú samt mitt hlutskipti eins og um það bil 170 annara kvenna sem greinast árlega með brjóstakrabbamein hér á landi og þegar það sem „aldrei kemur fyrir mig“ er orðið að veruleika er ekki um annað að ræða en aðlagast því. Hversdagslífð er orðið öðruvísi en áður en þetta er minn raunveruleiki og  mér ætti að finnast jafn eðlilegt að ræða hann og þann sem ég bjó við áður. Ég held samt að fólk taki  athugasemdum  eða bröndurum um um afskorin brjóst, sáradren og fylgikvilla eitlatöku ekki á saman hátt og spjalli um það hvort mér gekk vel eða illa á prófi.

Svona fréttum fylgir auðvitað engin sérstök sálarró. Ég upplifði hræðslu og kvíða og stundum helltist yfir mig einkennileg óraunveruleika tilfinning. Þetta gat ekki verið minn veruleiki, svona kemur einfaldlega ekki fyrir mig. Svona tilfinningu er erfitt að lýsa, maður stendur  utan við atburðina, utan við sjálfan sig og bíður eftir að bókin lokist, sagan taki enda og manns eigið líf taki við aftur með daglegu amstri,  vonum og væntingum.  Eða að ljósin verði kveikt og maður gangi út. Það bara gerist ekki ég er föst í minni eigin sögu, í nýjum kafla og fyrr en varir er hún hætt að vera óraunveruleg.  Hún bara er og þá er að taka því og halda áfram, einn dag í einu.






1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku hjartans túttan mín, hvað þú ert góður penni.......
kkv
shg