26. mars 2011

Ég sjálf

Ég hitti sjálfa mig aftur í dag eftir nokkurra daga fjarveru og mikið varð ég glöð. Ég varð svo glöð að ég fór niður í kjallara með tölvuna, án þess að þurfa að renna mér á rassinum niður stigann og skríða á fjórum fótum upp aftur, prentaði þar úr nokkrar þýskar sagnir til að læra utan að. Fór svo á tónleika hjá Domus Vox, út að labba og út að borða. Ég lét það ekki einu sinni eyðileggja daginn að þjónustan á Hróa, var enn verri en venjulega, afgreiðsludaman veinaði eins og stunginn grís í hvert skipti sem hún fór í eldhúsdyrnar, kokkurinn sagðist ekki geta hitað bernessósuna því þá skildi hún sig (eða misskildi- ég nennti ekki að taka hann í tíma í sósugerð) og lambasteikin mín var steikt eins og nautakjöt. Hún var hrá. Þegar búið var að steikja hana skv. mínum smekk voru allir aðrir búinir að borða.
Kalda bernessósan var bragðgóð, kvöldið bjart, vorið er komið og ég held höfði. Hvað er hægt að fara fram á meira?

Nehmen- nimmt- nahm- genommen= taka.

Annars finnst mér voðalítið gagn í þessu þýskunámi. Ég veit ekki neitt um neitt þó ég læri einhver nafnorð og sagnorð og forsetningar. Notar maður nehmen í sömu merkingu og að taka í íslensku.    Að taka í taumana, taka í nefið, taka sér tak, taka á honum stóra sínum, eða tekur maður bara eitthvað upp með nehmen?
Á facebooksíðu sjúkraliðans fór í gang umræða um þýðingu á Ave Maria. Frænka hennar vill trúa því að þetta þýði bæn af því að í krossgátum er notuð sú merking, þ.e. Ave Maria =Maríubæn. Flubbinn og kórfélaginn vill meina að merkingin sé heilög María og eftir yfirlegu á Google translate, pocket Latin dictionary frá Langenscheidt og Snöru.is er ég komin að þeirri niðurstöðu að þetta þýði heill María/Maríu. Nú eða eins og kom í ljós í söngskránni frá jólaföstutónleikunum (ég er hætt að tala um aðventu) Heil sért þú María. Þetta er nú svipað og heill sé þér María, eins og ég var að spá í fyrst.   
Einu sinni langaði mig óskaplega að læra latínu og annað slagið finn ég þessa löngun aftur, kannski ég snú mér að því ef mér tekst að læra þýskuna og ná prófum þar.

Þetta er bull á bull ofan en það er allt í lagi. Ég þarf ekkert að vera gáfuleg núna, aðalmálið er að skemmta sjálfri mér.

2 ummæli:

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Mig minnir að "ave" sé bara ávarpskveðja, í klassískri latínu. Þýðir eitthvað svipað og "sæl/ sæll". (Ef ég hitti þig á götu og við mæltum á latínu myndi ég segja kurteislega : "Ave Hafrún" :)

Svo vel vill til að íslenska ávarpið er fallegt og í því felst í rauninni blessun. Svo Ave Maria má sem best þýða "Sæl María".

Stundum segja menn meira að segja "Heilir og sælir ... hlustendur góðir til sjávar og sveita ..." og ítreka þannig upphaflegu merkinguna í sæll.

Merkingin er pottþétt ekki heilög María, það er "sancta Maria). Ef ég man rétt er hefðbundin Maríubæn á latínu: "Ave Maria, gratia plena, mater misericordiaæ ... " þ.e. "Sæl María, full af náð, móðir miskunnarinnar ...". En kannski man ég rangt og rugla saman við Sancta Maria kvæði (og nenni ekki að gúggla).

Hafrún sagði...

Ave Harpa.
Þetta hljómar vel og skynsamlega, eins og við er að búast, og framvegis heilsa ég fólki með þessari kveðju, þó ekki væri nema til að kanna viðbrögðin.

Við erum löngu hætt að taka eftir því hvað „sæl" er fallegt ávarp og að ég tali nú ekki um „blessaður“ eða „Vertu blessuð“