9. febrúar 2011

Smámunasemi

Í markaðsfræðinni sem ég var að myndast við að læra fyrir mörgum árum las ég um rannsóknir á neytendahópum og nýjungagirni. Það var auðvitað ekki notað orði nýjungagirni heldur eitthvað voðalega flott orð, hvað um það ég er að reyna að heimfæra þessar rannsóknir upp á smámunasemi. Ákveðinn hluti neytenda er fljótur að tileinka sér nýjungar (í stærðfræðinni hefði verið talað um mengi). Annar hluti er mjög tregur til að tileinka sér nýjungar og þarf að hafa mikið fyrir því að ná til fólks í þeim hóp með markaðssetningu. Svo er millideildin og við ræðum hana ekkert hér. 

Það sem mér fannst merkilegast í þessum rannsóknum var sammengið, þ.e. sá hluti sem er stundum nýjungagjarn og stundum afturhaldssamur. Sá sem er nýjungagjarn í tækjakaupum getur verið bölvaður afturhaldsseggur í fatatísku. Þannig er nú það. 

Og hvað kemur þetta smámunasemi við? Jú ég er að reyna að sannfæra mig um að svipað módel eigi við um smámunasamt fólk. Ég geti tildæmis verið afskaplega smámunasöm þegar kemur að staðreyndavillum í tal-, ritmáli og skáldsögum en slétt sama um hluti eins og óreiðu í skóhillunni. Ég er svo slæm á sumum sviðum að ég lagaði uppsetninguna á enskuverkefnunum mínum áður en ég fór að læra. Kennarinn kann greinilega  lítið á Word og hefur ótal enter merki í header og footer og kann ekki að formata stílsniðin. Þetta er auðvitað bilun en hvað á maður að gera eftir stanslausan heilaþvott upplýsingatæknikennarans? 

Skáldsagna ónámkvæmni er svo kapítuli útaf fyrir sig. Fróður maður sagði mér um daginn að það lægi í augum uppi, að frá Reykjavík séð bæri  fullt tungl ekki yfir  Esjuna  að vetrarnóttu. Ég viðurkenni að þarna skákaði hann mér – og Steinunni Sigurðar

Bergsveinn Bergsson lætur sinn bónda, þennan mikla fjárræktarmann, les fjármörk frá vinstri til hægri. Þó ég hafi aldrei komið á rétt í Hörgárhreppi held ég að mönnum þar hefði ekki gengið vel að finna markið tvístíft framan vinstra, sýlt og biti framan hægra í markaskránni.  Ég skal éta þetta ofan í mig með kjötsúpunni ef einhver getur sýnt mér farm á að markaskrá in hafi ekki verið eins í öllum landshlutum. 

Á sömu blaðsíðu í „Svarinu “ hans Bergsveins segir  „Hefði ég kysst þig ...en þú hysjaðir upp lopapeysuna og beraðir brjóstin....“ Um þetta þyrfti ekki fleiri orð ef þessi mögulega athöfn hefði ekki, ef til vill og kannski,  átt að gerast á Lambertsmessu ´39. Flestar áhugasamar prjónakonur hafa heyrt eða lesið um uppruna íslensku lopapeysunnar sem ekki var byrjað að prjóna fyrr en á 6. áratugnum eins og er rakið á þessari fróðlegu síðu Hörpu Hreinsdóttur. 

Hann afi minn heitinn fór sjaldan byssulaus af bæ og ósjaldan gekk hann með sjónum með riffilinn á öxlinni og veiðihundinn á hælunum. Hann skaut sjófugl og hundurinn sótti. Ég man aldrei eftir að hafa séð fugl sökkva og þar sem fuglabein eru hol og sæmilega þétt held ég að þau virki sem flotholt. Kolur dreif sig alltaf eftir veiðinni um leið og skotið reið af svo bráðin flaut aldrei lengi á sjónum og maður hugsaði lítð út í þessa flothæfileika dauðra fugla. Mamma, sem er haldin sömu smámunasemi og ég gagnvart staðreyndum í bókum, lítur Vilborgu mína Davíðs ekki réttu auga eftir að hafa lesið Hrafninn. „Fugl sekkur ekki“ segir hún harðneskjuleg á svipinn og bætir svo við, „Það þarf enginn að segja mér að menn hafi borðað steikt lambakjöt á miðöldum“. Mistök sama rithöfundar. Það er mun líklegra að sauðakjet hafi verið á veisluborðum á höfðingjasetrum norðanlands.

Ég velti því fyrir mér hvort ég þurfi ekki að temja mér umburðarlyndi gangvart svona mistökum rithöfunda. Ég er ekki svo fullkomin sjálf að hér séu aldrei málfræði- rit- eða innsláttarvillur, að ég tali nú ekki um ranga greinarmerkja notkun. Á móti kemur að ég hef engan ritstjóra að blogginu og er ekki að selja nokkrum manni það. Öfugt við rithöfundana. Auðvitað eru mistök mannleg og fólk getur ekki vitað allt en á þá viðkomandi ekki að þekkja sín takmörk? 

Ég þori ekki fyrir mitt litla líf að kynna mér vélvæðingu  í íslenskum landbúnaði –sem mér finnst þó mjög áhugaverð– af hræðslu við að finna fleiri staðleysur í þessari ágætu bók sem ég er að lesa, Svar við bréfi Helgu.  Ég ræð ekki við það að ég læt þetta stórskemma –ég segi nú ekki eyðilegja– ánægjuna af lestri skemmtilegra bóka.

1 ummæli:

Harpa Hreinsdóttir sagði...

Minni á hugtakið "skáldaleyfi" í þessu sambandi :)

Annars var Guðmundi Kamban úthúðað fyrir álíka villur á sínum tíma, eftir að hann skrifaði Skálholt (verk sem ég hafði ljómandi gaman af á unglingsaldri). Líkast til er ekki lengur í tísku að gagnrýnendur taki eftir svonalöguðu. Raunar er ég viss um að Vilborg hefur eitthvað fyrir sér með lambaketið - hún hefur ævinlega rannsakað bakgrunninn mjög vel áður en hún leggst í sagnaritunina sjálfa.

Meðan fólk í miðaldabókum dregur ekki upp farsíma í miðri sögu getur maður sosum látið sem ekkert sé, ef sagan er góð.