Í þá gömlu góðu daga þegar menn áttu allt sitt undir náttúruöflunum spáðu þeir í veðrið og spáðu fyrir um veður. Veðurspá þeirra tíma, fyrir daga Veðurstofu Íslands, byggðist á skýjafari, sennilega sjólagi og öðru sem ég hef ekki hugmynd um. Enda þekki ég ekki lengur nokkurn mann sem þurfti að treysta á eigið hyggjuvit í samskiptum við veðurguðina. Nú treystum við á langskólagengna veðurfræðinga og lesum spádóma þeirra á veraldarvefnum.
Ég hef orðið þann daglega morgunvana að opna vedur.is og athuga hvað veðurfræðingarnir segja um veðrið í dag og næstu daga. Ég læt meira að segja yfirlitskortið duga, það er of tímafrekt að lesa textaspár. Reyndar kíki ég stundum á yr.no þegar mikið liggur við. Sú veðursíða hefur sér það til ágætis að þar er hægt að slá inn hvaða bæjarnafn sem er og fá upp veðurspá.
Að þessum athugnum loknum opna ég síðu Vegagerðarinnar og tek stutt yfirlit yfir útsýnið úr vefmyndavélunum þar. Það eru til dæmis fallegir litirnir yfir Húnaflóanum í dag og snjórinn í Kambaskriðunum er fölbleikur í morgunbirtunni. Í Kópavoginum er alskýjað, mér dugir að draga frá glugganum til að sjá það.
Þó ég færi út og skoðaði skýjafarið, þefaði upp í vindinn og virti fyrir mér sjólagið gæti ég ekki með nokkru móti sagt fyrir um lægðina sem er á leið inn yfir landið. Samt hrósa ég mér –í huganum auðvitað– af því að þekkja íslenska náttúru nokkuð vel. Gera t.d. greinar mun á snjómuggu, hundslappadrífu og byl, já og hneykslast oft herfilega á þeim sem tala um byl þegar er éljagangur.
Afi minn sagði að þegar skýjabakkinn héngi niður á brúnina á Urðahjallanum lægi hann í suðaustan átt. Ég þarf að fara á veraldarvefinn til að sjá hvort er austan átt eða logn.
| Við Kleifarvatn í góðu veðri |
Engin ummæli:
Skrifa ummæli