12. janúar 2011

Freyðibað með Óvíd

     Ég verð ekki mosagróin á dögum eins og þessum, sem betur fer. Ein ferð með soninn út á Keflavíkurflugvöll klukkan 6,  smá lúr eftir það og svo snúningar við nám og vinnu áður en ég fór aftur út á Völl en nú í þýskutíma. Heim aftur með Of Mice and Men í eyrunum, próf í sama efni, vinna og svo sokkaprjón til að reyna að hreinsa heilann af áreyti dagsins. Mér tókst ekki vel upp við það, að hreinsa heilann sko, sokkurinn er ágætur.
     Eftir svona daga er full ástæða til að láta renna í  freyðibað og láta þreytuna leka úr sér yfir í heita vatnið– og góða bók. Langtíma reyfaralestur  verður stundum þreytandi og nú fannst mér kominn tími á að halda áfram með Óvíd. Reyna að rekja saman einhverja þræði í ættfræði rómverskra guða og átta mig á því hver drap hvern og hver áttti barn með hverjum.  Ég held að ég þurfi hjálpartæki eins og ættartré fjölskyldunnar með öllum nicknames til að átta mig á hver er hvað og hvaða nöfnum viðkomandi gegnir.

     Jæja, hvað er það sem Google frændi gerir ekki fyrir mann. – Hér er fjölskyldutréð og nú les ég ekki staf í viðbót nema hafa þetta fyrir framan mig.


     Eftir að hafa svo útvatnast með Óvíd í góðan hálftíma lá við að mér féllust hendur þegar heilinn sneri sér að hversdagsleikanum. Það eina sem kom í veg fyrir það var að þá hefði handklæðið dottið í gólfið og mér snöggkólnað. En – það var ekki um annað að ræða en skipta handklæðinu út fyrir viðeigandi gönguklæðnað og skella sér út í náttmyrkrið. Það er full mikið frost til að fara út í handklæðinu einu saman.

Skylduverkin eru þá afgreidd þennan sólahringinn og koddinn fær loksins að njóta nærveru minnar.Ekki nema tveggja tíma seinkun, það þætti ekki mikið hjá Iceland Express


 

2 ummæli:

elina sagði...

hvaða bók er þetta ? Segðu mér betur frá henni.... Óvíd ?

Hafrún sagði...

Metamorphoses eða Ummyndanir eftir rómverska skáldið Publius Ovidius Naso í þýðingu Kristjáns Arasonar.
Það gengur hægt að lesa hana, þetta eru svo svakalegar blóðugar lýsingar í henni. Morð, bróðurmorð, sifjaspell, nauðganir, álög og vanskapningar til viðbótar við flókna ættfræði. Maður verður að leggja svona lesefni frá sér annað slagið og snúa sér að léttum hryllingi í anda Yrsu Sigurðar.